Áfram Ásgeir!
Það var árið 2008 sem við „Á allra vörum“ stöllurnar hittum Ásgeir Sveinsson í fyrsta skiptið, en hann var þá framkvæmdastjóri Halldórs Jónssonar ehf., umboðsaðila Dior á Íslandi.
Ástæða fundarins var að fá hann til liðs við okkur þegar við undirbjuggum okkar fyrsta átak þ.e. að selja varagloss til styrktar góðu málefni. Markmiðið var að vekja þjóðina til umhugsunar um brjóstakrabbamein kvenna og safna fyrir lokagreiðslu í nýju brjóstamyndatæki fyrir Krabbameinsfélagið.
Þrautseigi Ásgeir
Það gilda strangar reglur um sölustaði hjá snyrtivörumerki eins og Dior og þegar Ásgeir kynnti hugmyndina fyrir því magnaða fyrirtæki fékk hann vægast sagt dræmar viðtökur. En hann lét ekki segjast og eftir ótal símtöl og heimsókn til höfuðstöðva fyrirtækisins í París tókst honum að sannfæra fólkið um að taka þátt í þessu einstaka átaki. Þar með fékkst leyfi til að selja Dior í stórmörkuðum, til fyrirtækja og einstaklinga sem skilaði frábærum árangri og uppskárum við 20 þúsund seld eintök. Það má fylgja sögunni að Diorfólk hafði svo sannarlega ekki búist við öðrum eins árangri og botnaði hvorki upp né niður í þessari glossglöðu þjóð. Það er alveg á hreinu að þrautseigja og úthald Ásgeirs hafði allt um það að segja að leyfi fékkst.
Pottþétti Ásgeir
Við kynntumst Ásgeiri bæði persónulega og viðskiptalega á þessu brölti okkar. Í stuttu máli má segja að allt hafi staðist eins og stafur á bók. Við höfum oft talað um það okkar á milli að hann eigi mikið í velgengni Á allra vörum og það sé ekki síst honum að þakka hversu vel okkur tókst að kynna átakið. Það skipti máli að vera með ábyggilegan samstarfsaðila og getum við þakkað hversu vel var vandað til verka í upphafi og var Ásgeir stór hlekkur í þeirri keðju.
Dugnaðarforkurinn Ásgeir
Ásgeir starfaði náið með okkur í öllum undirbúningnum, lánaði okkur húsnæði og var boðinn og búinn að létta undir á allan hátt. Við nutum góðs af hans hæfileikum í rekstri og stjórnun auk þess sem alltaf var hugsað í lausnum með þau fjölmörgu verkefni sem komu upp og þurfti að leysa. Hann er skipulagður og hefur einstakt lag á að fá fólk til að vinna með sér, enda lagði hann alltaf áherslu á liðsheild og passaði að allir hefðu hlutverk og væru á réttum stað á réttum tíma, enda tók starfsfólk HJ þátt með okkur af heilum hug eftir hans hvatningu.
Áfram Ásgeir
Um leið og við þökkum Ásgeiri stuðninginn við okkur stöllur í gegnum tíðina viljum við hvetja hann til dáða í baráttunni um leiðtogasæti Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ fyrir næstu kosningar. Þú ert réttur maður á réttum stað og íbúar geta hrósað happi að fá annan eins dugnaðarfork og framkvæmdamann sem oddvita Sjálfstæðisflokksins í Mosó.
Áfram þú, elsku Ásgeir!
Gróa, Elísabet og Guðný.
Á allra Vörum.