Velferð og þjónusta í Mosfellsbæ

Jana Katrín Knútsdóttir

Orðið velferð þýðir samkvæmt íslenskri nútímamálsorðabók að „einhverjum farnist vel“.
Samkvæmt lögum ber stjórnvöldum að tryggja velferð sinna þegna og markmið þeirrar velferðarþjónustu sem Mosfellsbær veitir ætti því að vera að auka lífsgæði og stuðla að því að allir íbúar Mosfellsbæjar eigi kost á að lifa með reisn. Velferð skarast á svo mörgum sviðum samfélagsins en hér verður aðeins tæpt á fjölbreyttum þörfum barna, fjölskyldna og einstaklinga á öllum aldri.
Innan skólakerfisins er í dag, sem aldrei fyrr, þörf á hæfu og reyndu starfsfólki sem hefur metnað fyrir því sem það er að gera. Einnig þarf að tryggja að stoðþjónusta sé til staðar, á réttum tíma og á réttum stað. Öðruvísi getur ekki farið fram faglegt og gott starf sem stuðlar að menntun, þroska og velferð nemenda. Kennarar og aðrir sem starfa með börnum (s.s. í frístund eða tómstundastarfi) eru að veita þjónustu sem oft er langt umfram „hefðbundna“ kennslu.
Kennarar í dag vinna að því alla daga að vinna traust sinna nemenda, lesa í þarfir hvers og eins og með lausnamiðuðum hætti finna leið fyrir hvern einstakling að námi og árangri. Stuðningur við heimili er einnig umfangsmikill þáttur í starfi kennarans ekki síst í vaxandi fjölbreytileika samfélagsins. Í einhverjum tilfellum gegna þeir jafnvel því hlutverki að uppfylla þarfir, sem nemendur fá ekki uppfylltar á sínu heimili.
Aðstoð og þjónusta við fatlað fólk og eldri borgara á eigin heimilum og á stofnunum eru líka hluti velferðarþjónustu hvers sveitarfélags.
Ef standa á við alþjóðlegar skuldbindingar sem Ísland hefur gengist við og uppfylla lög um mannréttindi og réttinn til heilsu þá er mikilvægt bjóða upp á búsetu við hæfi og að veita viðeigandi þjónustu á öllum stigum. Þannig er hægt að tryggja að það fjármagn sem veitt er til þessarar þjónustu nýtist sem best.
Störf sem þessi krefjast mikils af þeim sem þeim sinna. Það er staðreynd að þeir sem starfa í nánum og krefjandi mannlegum samskiptum eru í aukinni hættu á kulnun í starfi með tilheyrandi neikvæðum afleiðingum á heilsu og lífsgæði en ekki síður afleiðingum fyrir gæði þeirrar þjónustu sem er veitt. Starfsumhverfi, samskipti, stuðningur, stjórnun og stjórnsýsla hefur mikil áhrif á þessa þætti og því mikilvægt að rýna í og skoða hvort þar sé gert eins vel og hægt er.
Margoft hefur verið bent á að ekki hafi verið rétt gefið þegar þessi þjónusta fluttist frá ríki til sveitarfélaga og vissulega eru sveitarfélögin bundin af kjarasamningum þessara stétta, en við þurfum að horfa á allt þetta umhverfi með gagnrýnum huga og skoða hvort gera megi betur.

Jana Katrín Knútsdóttir
Höfundur er í 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar