Skipulag Rauða Krossins

Hilmar Bergmann

Hilmar Bergmann

Rauði krossinn í Mosfellsbæ er ein af 42 deildum eða aðildarfélögum sem saman mynda Rauða krossinn á Íslandi. Rauði krossinn á Íslandi er síðan eitt af 190 landsfélögum Rauða krossins og Rauða hálfmánans sem saman mynda Alþjóðasamband Rauða krossins og Rauða hálfmánans.
Einungis má vera eitt Rauða kross félag í hverju landi og er það víðast hvar staðfest með lögum viðkomandi lands, þar á meðal hér á landi. Einnig eru ákvæði um Rauða krossinn og sérstöðu hans í Genfarsamningunum sem 196 ríki, þar á meðal Ísland, hafa undirritað.

Rauði krossinn er frjáls félagasamtök í þeim skilningi að hver sem er sem er sammála markmiðum félagsins getur gerst félagi. Hins vegar hafa félagar ekki algert frelsi til að ákveða hvernig félagið vinnur eða hvaða verkefni það tekur að sér. Hver deild hér á landi er bundin af lögum og stefnu Rauða krossins á Íslandi sem aftur er bundinn af lögum og stefnu Alþjóða Rauða krossins. Samkvæmt Genfarsamningunum ber Rauða krossinum í hverju landi að vinna með stjórnvöldum en þó þannig að hann heldur sig alltaf við grundvallarmarkmið sín.

Uppbygging Rauða kross hreyfingarinnar gerir það að verkum að stuðningur á að vera til staðar þegar áföll verða. Félagið í hverju landi styður deildir sínar og Alþjóðahreyfingin styður landsfélögin. Fyrstu viðbrögð við áföllum eru nánast alltaf staðbundin. Það eru þeir sem búa eða staddir eru á viðkomandi stað sem hjálpa flestum. Þetta er ein af ástæðum þess að Rauði krossinn hefur frá upphafi lagt áherslu á að sem flestir kunni skyndihjálp því ekkert okkar veit hvenær við verðum fyrst á vettvang. Þetta er einnig grundvallaratriðið í uppbyggingu neyðarvarna Rauða krossins á Íslandi en samkvæmt íslenskum lögum er Rauði krossinn hluti af viðbúnaðarkerfi almannavarna.

Aðild að alþjóðlegri hreyfingu felur einnig í sér þá skyldu að ef að þrengir að í einu landi þá ber Rauða kross félögum í öðrum löndum að koma til aðstoðar. Sem betur fer búum við Íslendingar svo vel að við erum fær um að aðstoða aðra og Rauði krossinn á Íslandi hefur ekki þurft að leita aðstoðar annars staðar. Sá möguleiki er þó alltaf fyrir hendi og einu sinni hefur Rauði krossinn á Íslandi fengið slíka aðstoð frá öðrum löndum þó að ekki hafi verið beðið um hana en það var 1973 þegar eldgosið varð á Heimaey. Þá bárust Rauða krossinum á Íslandi stór framlög til hjálparstarfs sem félagið nýtti í þágu Vestmannaeyinga.
Ákvörðunin um hvernig þessir fjármunir voru nýttir var tekin hér á landi og þannig vinnur Rauði krossinn alls staðar, þ.e. að hjálparstarf er alltaf undir stjórn félagsins í viðkomandi landi. Aðstoðin felst því sjaldnast í því að fólk frá öðrum löndum fari til annars lands heldur í því að senda fjármagn sem fólk á staðnum nýtir á sínum forsendum til að hjálpa sér sjálft.

Við hjá Rauða krossinum í Mosfellsbæ hvetjum þá sem vilja vinna að grundvallarmarkmiðum Rauða krossins til að koma til liðs við okkur með sjálfboðnu starfi eða öðrum stuðningi. Verkefnin geta legið víða, bæði hér heima og að leggja lið í öðrum löndum.

Fyrir hönd Rauða krossins í Mosfellsbæ,
Hilmar Bergmann, formaður stjórnar.