Allir leggja sitt af mörkum

Snjallræði er þróunarverkefni sem unnið hefur verið að í Helgafellsskóla í fjögur ár. Þetta er hönnunarstund þar sem allir nemendur skólans, allt frá leikskólastigi upp á unglingastig, glíma við mánaðarlegar áskoranir. Markmið Snjallræðis er að efla nemendur í samvinnu, skapandi og gagnrýnni hugsun ásamt því að þjálfa og styrkja ímyndunaraflið.
Hvatamaður að þessu þróunarstarfi er Málfríður Bjarnadóttir deildarstjóri við skólann en hún er ein af handhöfum Íslensku menntaverðlaunanna 2024.

Málfríður eða Fríða eins og hún er ávallt kölluð er fædd í Reykjavík 13. mars 1991. Foreldrar hennar eru þau Björg Kristín Kristjánsdóttir kennari og bókasafnsfræðingur og Bjarni Snæbjörn Jónsson stjórnunarráðgjafi.
Bræður Málfríðar eru þeir Þórður Illugi f. 1980 og Kristján Sturla f. 1985.

Varmáin rann í gegnum garðinn
„Fyrstu sextán ár lífs míns bjó ég innst í Grenibyggðinni. Í bakgarðinum okkar var lítið skógarrjóður og Varmáin rann í gegnum garðinn.
Það var dásamlegt að alast þarna upp, stutt í náttúru og ég lék mér mikið úti. Í hverfinu var mikið af krökkum og nánast öll sumarkvöld var gengið í hús og safnað saman í leiki. Á veturna renndum við okkur á sleða í brekkunni við Dælustöðina.“

Góðar minningar frá Reykjum
„Ég á einnig góðar minningar frá Reykjum, en afi minn og amma, Jón og Málfríður bjuggu þar. Ég sótti mikið í að vera hjá þeim og frænkum mínum sem bjuggu á efri hæðinni. Ég öfundaði þær að fá að búa þarna en var svo heppin að á milli okkar var gott samband og ég eyddi því miklum tíma með þeim. Fyrir mér var þetta allt sérlega spennandi, heyskapurinn, leika í hlöðunni eða fá að fara á hestbak.
Ég gekk í Varmárskóla og þaðan á ég mjög ljúfar minningar. Ég varð fljótt kappsamur námsmaður, stundum aðeins of kannski,“ segir Fríða og brosir. Ég var samt líka mikil félagsvera og tók þátt í öllu slíku.
Yfir sumartímann snerist allt um fótboltann en ég æfði fótbolta með Aftureldingu fram á unglingsárin. Eins ferðaðist ég mikið með foreldrum mínum erlendis ásamt því að fara í veiðiferðir og önnur ferðalög um landið.“

Lærdómsríkt og þroskandi ferðalag
„Leið mín lá síðan í Menntaskólann í Reykjavík. Stærðfræði og raunvísindi hafa alltaf legið vel fyrir mér þannig að það lá beinast við að feta þá braut. Frá MR fór ég í Háskóla Íslands þar sem ég kláraði B.Sc. í næringarfræði. Eftir útskrift tók ég mér árs frí og lagði land undir fót ásamt góðum vinkonum. Við ferðuðumst um Mið- og Suður Ameríku í þrjá mánuði sem var virkilega lærdómsríkt og þroskandi ferðalag.
Þegar ég kom heim hóf ég meistaranám við HÍ í matvælafræði þar sem ég vann stórt rannsóknarverkefni fyrir Matís. Ég stefndi á doktorsnám eftir útskrift úr náminu og var komin í samband við leiðbeinanda við háskóla í Kanada.“

Besta ákvörðun sem ég hef tekið
„Ég starfaði hjá Matís sumarið eftir útskrift úr meistaranáminu en svo bauðst mér óvænt starf hjá litlu einkafyrirtæki. Ég var spennt fyrir þessu tækifæri og ákvað því að slá doktorsnáminu á frest. Ég upplifði þó starfið hvorki gefandi né sérstaklega áhugavert. Ég er samt afskaplega þakklát þessu starfi því það markaði tímamót í mínu lífi og hjálpaði mér að fylgja hjartanu. Ég tók U-beygju og skráði mig í kennslufræði í HÍ.
Á mennta- og háskólaárunum vann ég m.a. á leikskólum og naut þess að vinna með börnum, þó hafði aldrei áður hvarflað að mér að leggja kennarastarfið fyrir mig. Þetta er ein albesta ákvörðun sem ég hef tekið, þú finnur ekki fjölbreyttara, meira skapandi og gefandi starf. Ég hlakka til að mæta í vinnuna alla daga.“

Elskum að búa til minningar
Málfríður er gift, Anítu Kristjánsdóttur félagsráðgjafa og tölvunarfræðingi. Þær eiga saman tvo drengi, Hrafnkel Sturlu f. 2020 og Hjalta Tómas f. 2022.
„Ég er mikil fjölskyldumanneskja og við fjölskyldan elskum að eyða saman tíma og búa til minningar. Okkur finnst mjög gaman að ferðast og stunda útivist eins og fjallgöngur.
Varðandi áhugamálin þá hef ég mikinn áhuga á allri hönnun, elska að gera heimilið mitt fínt og leita mér að innblæstri fyrir það, eins hef ég mikla ánægju af því að elda og prófa mig áfram í eldhúsinu
Skólaþróun og kennslufræði er eitthvað sem ég þreytist aldrei á, búa til námsefni, finna hugmyndir sem nýtast í skólastarfinu eða kynna mér ýmis konar tækni og hvernig hún nýtist í kennslu.“

Tækni og skapandi kennsluhættir
Fríða starfar í dag sem deildarstjóri verkefna í Helgafellsskóla. Hún aðstoðar kennara við að innleiða tækni og skapandi kennsluhætti í gegnum námskeið og með því að þróa efni sem nýtist þeim í kennslu.
„Ég tek hópa á öllum aldursstigum í alls konar tækni og skapandi nám. Hef meðal annars verið með þrívíddarprentun ásamt því að kenna forritun, nýsköpun og ýmis konar fikt.
Ég hef leitt verkefnið mitt Snjallræði í skólanum s.l. fjögur skólaár en Snjallræði er hönnunarstund þar sem allir nemendur skólans, allt frá leikskólastigi upp á unglingastig, glíma við mánaðarlegar hönnunaráskoranir.
Í hverjum mánuði fá nemendur áskorun um að hanna nýtt leikfang eða farartæki og einu sinni á önn glíma nemendur við stærri áskorun, þar sem þeir tækla eitthvað raunverulegt vandamál sem unnið er í þemavinnu. Foreldrum og forráðamönnum er síðan boðið í heimsókn til að sjá afraksturinn.“

Það felast í þessu miklir möguleikar
„Ég er gríðarlega metnaðarfull þegar kemur að þessu verkefni og legg mikið upp úr því að búa til áskoranirnar þannig að auðvelt sé að nýta sér þær. Þær eiga að nýtast kennurum sem eru óöryggir í þessari vinnu en þær eru líka þess eðlis að þeir kennarar sem eru komnir langt í þessari vinnu eiga að hafa heilmikið svigrúm til að útfæra áskorunina á sinn hátt og taka verkefnið jafnvel skrefinu lengra.
Ég hef deilt öllum áskorunum á www.bit.ly/snjallraedi en ég hef alla tíð haft það að markmiði að hafa efnið aðgengilegt svo að aðrir skólar eða kennarar geti nýtt sér það á einn eða annan hátt.
Markmið Snjallræðis er að efla nemendur í samvinnu, þar sem allir leggja sitt af mörkum, skapandi og gagnrýnni hugsun, ásamt því að styrkja ímyndunaraflið. Í gegnum verkefnið öðlast nemendur einnig færni í sjálfstæðum vinnubrögðum, læra að setja sig í spor annarra og átta sig á því að mistök eru ómissandi og dýrmætur hluti af skapandi ferli.
Ég er sannfærð um að Snjallræði gegni lykilhlutverki í að efla framtíðarfærni nemenda. Það felast nefnilega miklir möguleikar í því að byrja strax á leikskólastigi að hlúa að sköpunargáfu barna,“ segir Fríða og brosir er við kveðjumst.