Ég fæ að kafa ofan í ýmsa heima

Vivian Ólafsdóttir útskrifaðist úr Kvikmyndaskóla Íslands árið 2012 og hefur síðan þá starfað sem leikkona. Hér á landi er hún hvað þekktust sem Stefanía í Leynilöggunni og svo lék hún hugrökku Kristínu í Napoleonsskjölunum en Vivian var tilnefnd til Edduverðlauna fyrir bæði þessi hlutverk.
Þessa dagana er hún að leika í bíómynd og fram undan eru svo tökur á þáttum en í báðum þessum verkefnum fer Vivian með aðalkvenhlutverkin.

Vivian er fædd í Færeyjum 12. maí 1984. Foreldrar hennar eru Rita Didriksen og Ólafur Andrésson en hann lést árið 2011.
Vivian á fjögur systkini, Anní f. 1989, Örn Bjartmars f. 1995, Andra Snæ f. 2000 og Natan Mána f. 2001.

Hér hefur mér alltaf liðið best
„Ég átti mjög óhefðbundna æsku því við fluttum svo oft á milli staða, ég bjó aldrei lengur en tvö ár á hverjum stað og stundum skemur. Ég ólst upp á stórhöfuðborgarsvæðinu, úti á landi og í Þýskalandi. Mín rót er og verður samt alltaf í Mosfellsbæ, hér hefur mér alltaf liðið best enda bý ég hér í dag og er alls ekki á förum.
Ég á margar góðar æskuminningar, þegar við pabbi vorum að veiða á sumrin, þá sátum við saman á árbakkanum í algjörri þögn og borðuðum lakkrís. Dásamlegar gæðastundir með afa og ömmu á Laugabóli í Mosfellsdal og svo var það Akratúnið hjá Ingu vinkonu, ég var á tímabili heimalningur þar á bæ og það var margt brallað á Reykjum.“

Allt svo nýtt og spennandi
„Ég gekk í sjö grunnskóla, þrjá framhaldsskóla og útskrifaðist svo úr fjarnámi frá skóla í Þýskalandi. Þetta voru alls konar upp og niður upplifanir.
Ég man samt vel eftir 1. og 2. bekk í Varm­árskóla, mér leið virkilega vel í þeim skóla og á bara góðar minningar þaðan. Allt var svo nýtt og spennandi og fyrsti kennarinn minn hét Agnes.
Á sumrin starfaði ég í unglingavinnunni, sláturhúsi, skóbúð ömmu minnar og afa og undirfataversluninni Misty.“

Messi á frystitogara
Eftir útskrift úr gagnfræðaskóla fór Vivian beint á sjóinn, var messi á frystitogara. Afi hennar hafði verið skipstjóri í Færeyjum áður en þau hjónin fóru út í verslunarrekstur hér á landi.
„Afi var æðislegur og ég elskaði sjóinn svo ég hugsaði með mér, af hverju ekki að gerast bara skipstjóri eins og hann. Ég var hörkudugleg og vildi sanna mig og þegar ég var búin með mín störf sem messi fór ég oft niður í vinnslu og starfaði þar eins og aðrir hásetar. Þessi vinnustaður var að drukkna í eitraðri karlmennsku og ég var áreitt af mörgum en sem betur fer voru þarna nokkrir karlar sem þótti vænt um mig og vernduðu mig.
Ég fór í nokkur skipti í von um að komast að sem háseti, mér fannst ég vera búin að sýna það að ég gæfi þessum körlum ekkert eftir. Skipstjórinn tók samtalið og sagðist ekki geta gefið unglingsstúlku eftir það pláss sem fjölskyldumenn biðu eftir. Ég skildi það mæta vel og sagði þar með skilið við sjóinn, en var engu að síður smá sár.“

Skellti sér til Hollywood
„Eftir sjóævintýrið mikla fór ég til Kýpur og Beirút, fór að vinna á bar og ferðaðist mikið. En um tvítugt skellti ég mér til Hollywood og fór þar á námskeið í virtum leiklistarskóla í Santa Mon­ica. Þetta var skemmtilegur tími og þarna kynntist ég leikurum sem voru í svona „underground workshops“, þarna sá maður í raun líf strögglandi leikara.
Þegar ég kom heim tóku við ýmis ævintýri, ég flutti aftur til Þýskalands þar sem ég hafði alist upp um tíma. Ég fór í háskóla í Hannover og byrjaði að læra heimspeki og trúarbragðafræði en listin kallaði alltaf á mig,“ segir Vivian og brosir.

Maður er stanslaust að læra
Eftir að Vivian flutti aftur heim til Íslands hóf hún störf hjá Mosfellsbæ, var starfsmaður félagsmiðstöðvarinnar Bólsins, sá um tjaldsvæðið og var yfir skemmtinefnd 17. júní hátíðarinnar. Með þessum störfum var hún líka að stíga sín fyrstu skref sem leikkona. Hún hóf nám í Kvikmyndaskóla Íslands og útskrifast þaðan árið 2012. Frá útskrift hefur Vivian starfað sem leikkona og hefur tekið að sér hin ýmsu verkefni. Leikið í risaauglýsingum, tekið að sér aukahlutverk, en hún er hvað þekktust fyrir leik sinn í Leynilöggunni og Napóleonsskjölunum þar sem hún fór með stór hlutverk.
En af hverju leiklist? „Hjá mér er það þörfin fyrir að líkama sögur sem við viljum eða viljum ekki heyra eða sjá. Þetta er bæði líkamleg og andleg áskorun og maður er stanslaust að læra og vaxa. Ég fæ að kafa í hina ýmsu heima, kynnast alls konar fólki og gera ýmis konar sem er fyrir mörgum mjög skrítið, bæði óhefðbundið og jafnvel erfitt en þá finnst mér extra gaman,“ segir Vivian.

Vil geta haft jákvæð áhrif
„Ég á mér draum um að segja mínar eigin sögur, fjalla um málefni sem skipta mig máli og helst vil ég geta haft jákvæð áhrif á samfélagið mitt. Ég er bæði að skrifa kvikmyndaupplifun og uppspuna og líka sögur af raunverulegum atburðum, gamanþætti og þætti um heilsu Íslendinga.
Fyrir utan þetta allt saman þá stefni ég á erlendan markað og er Þýskaland þar í fyrsta sæti. Ég tala þýsku og gæti vel leikið þar eins og hér og það ætla ég mér að gera. Ég hef nú þegar tengst Þjóðverjum í gegnum störf mín hérna heima og eru þeir byrjaðir að banka upp á með spennandi verkefni. Þið fáið vonandi að sjá eitthvað af þeim í framtíðinni,“ segir Vivian og brosir.

Náttúran er svo dásamleg
Vivian á fjögur börn, Kolbrúnu Unu f. 2009, Dagnýju Esju f. 2012, Gunnar Óla f. 2017 og Natan Funa f. 2019.
Vivian er listmálari frá náttúrunnar hendi, hefur alla tíð verið teiknandi og málandi alveg frá því hún var ung. Hún var til að mynda fengin til að mála fimm risaverk fyrir handboltafélagið í Lemgo í Þýskalandi.
„Ég er mikil fjölskyldumanneskja og rík af vinum og elska að eiga góðar stundir með mínu fólki. Það gefur lífinu gildi að hafa gaman og hlæja saman og ég reyni að gera sem mest af því. Sem leikkona og einstæð móðir þá er ekki alltaf í boði að fara til útlanda eða að fara í kostnaðarsamar upplifanir, náttúran okkar hér heima er svo dásamleg og við fjölskyldan notum hana mikið, sérstaklega hér í bænum.“