Barnadjass í Mosó í annað sinn

Mosfellsku djasskrakkarnir.

Dagana 20.-23. júní verður hátíðin Barnadjass í Mosó haldin í annað sinn.
Flytjendurnir eru á aldrinum 7-15 ára og koma frá Mosfellsbæ, Ísafirði, Reykjavík, Noregi og Færeyjum. Börnin eiga þó rætur að rekja mun víðar, svo sem til Svíþjóðar, Kína, Póllands, Palestínu, Hollands, Nígeríu og víðar.
Haldnir verða fernir tónleikar: Opnunartónleikar 20. júní kl. 19:00 í Hlégarði, tvennir klúbbtónleikar í Húsi Máls og Menningar (Reykjavík) 21. júní kl. 16:00 og 17:00 og lokatónleikar í Hlégarði 23. júní kl. 16:00. Allar upplýsingar um hátíðina er að finna á facebooksíðu hátíðarinnar.

Námskeið fyrir áhugasamakrakka
Eins og í fyrra eru Djasskrakkar gestgjafar hátíðarinnar. Hljómsveitina skipa fimm mosfellskir krakkar: Helga Margrét Einarsdóttir, 9 ára á trommur, Edda Margrét Jonasdóttir, 10 ára á klarinett, Rakel Elaisa Allansdóttir, 10 ára á trompet, Emil Huldar Jonasson, 12 ára á píanó og Svandís Erla Pétursdóttir, 13 ára á saxófón.
Djasskrakkar bera hitann og þungann af tónleikahaldinu ásamt erlendum gestum hátíðarinnar. Einnig eru fjórir krakkar frá Ísafirði boðnir sérstaklega velkomnir en þau tóku þátt í fjölmennu og vel lukkuðu námskeiði í djass og spuna á Ísafirði í vetur.
Sú nýbreytni verður í ár að haldið verður námskeið fyrir áhugasama krakka í aðdraganda hátíðar. Þeir krakkar munu taka þátt á lokatónleikunum.

Frumflytja nýtt lag á hátíðinni
Listrænn stjórnandi hátíðarinnar er sem fyrr norski djasstónlistarmaðurinn Odd André Elveland. Honum til aðstoðar er japanska djasstónlistarkonan Haruna Koyamada.
Á Barnadjassi í Mosó í ár munu Djass­krakkar frumflytja nýtt lag eftir Karl Olgeirsson. „Það hefur verið gaman að fá að vinna með Kalla og krakkarnir hafa öðlast flotta reynslu í að vinna með tónskáldi og læra nýjar leiðir við spuna,“ segir Guðrún Rútsdóttir framkvæmdastjóri Barnadjass í Mosó.
Verkefnið er styrkt af Mosfellsbæ, Barnamenningarsjóði, Nordisk kulturkontakt og Kiwanisklúbbnum Mosfelli. Ókeypis er á alla tónleika hátíðarinnar.