Svartmálmshátíð haldin í Hlégarði

Svartmálmshátíðin Ascension MMXXIV verður haldið í fjórða sinn dagana 3.-6. júlí í Hlégarði, en var áður haldin undir formerkjum Oration Festival frá 2016-2018.
Hátíðin leggur ríka áherslu á íslenskan jafnt og erlendan svartmálm en ekki síður fjölbreytta og tilraunakennda tónlist.
Fram munu koma 30 hljómsveitir frá 13 löndum og meðal íslenskra hljómsveita verða Kælan Mikla og Misþyrming. Í erlendu deildinni verða hljómsveitir á borð við Oranssi Pazuzu, Emptiness, Afsky og Inferno svo dæmi séu tekin.
„Árið 2019 fór hátíðin einnig fram í Hlégarði í Mosfellsbæ og teljum við það hreinlega orðinn part af hátíðinni okkar enda hefur húsið mikið upp á að bjóða og er umhverfið í kring fullkomið til að njóta miðnætursólarinnar í fjalladýrð Mosfellsbæjar,“ segir Stephen Lockhart skipuleggjandi hátíðarinnar.

Ascension, Studio Emissary og Oration
Hljóðverið Studio Emissary er starfrækt í Mosfellsbæ þar sem upptökur og hljóðblöndun fyrir hvers kyns tónlist er framleidd.
Studio Emissary hefur gefið út plötur á borð við ‘Flesh Cathedral’ með hljómsveitinni Svartadauða ásamt plötunni ‘Apotic Womb’ með hljómsveitinni Sinmara. Báðar hljómsveitir hafa vakið eftirtekt á alþjóða vettvangi.
Forsprakki Studio Emissary, Oration og Ascension er Stephen Lockhart, oft betur þekktur sem Wann í hljómsveitinni Rebirth of Nefast .
Vinna hans í íslensku svartmálmsenunni hefur skapað tengsl, aukið áhuga erlendis frá á íslenskum svartmálm og ýtt Íslandi ofarlega á kortið þegar kemur að þessari undirtegund af tónlist.
Hafandi unnið við allt frá Sinfóníuhljómsveit Íslands og Biophilia, hljómplötu Bjarkar yfir í svartmálm er hæglega hægt að segja að hann hafi náð að skapa sér nafn og traust þess sem hann vinnur með af nákvæmni og ástríðu.
Oration er svo aftur á móti útgáfufyrirtæki stofnað af Stephen Lockhart og er systurfyrirtæki Studio Emissary.
Með samruna þessara beggja fyrirtækja varð til Oration Festival, hátíð sem ætluð var að sýna hljómsveitirnar sem að Studio Emissary hafði unnið með að plötum. Oration stækkaði hratt og örugglega og fór að aukast við erlendar hljómsveitir sem sóttu hátíðina og léku listir sínar. Hátíðin var rekin í þrjú ár og upp úr ösku Oration reis Ascension sem nú verður haldin í fjórða skipti.