Moldin er undirstaða alls
Ólafur Gestur Arnalds prófessor hefur lengi fengist við rannsóknir á íslenskri náttúru og vernd hennar.
Moldin fæðir og klæðir jarðarbúa og hún miðlar jafnframt ferskvatni um vistkerfi. Skilningur á náttúrunni og hvernig hún bregst við álagi vegna athafna mannsins á jörðinni krefst þekkingar á moldinni.
Jarðvegur á Íslandi er einstakur á heimsvísu, frjór en viðkvæmur, því aðstæður fyrir þróun hans hérlendis eru afar sérstakar.
Ólafur Gestur Arnalds vísindamaður hefur verið málsvari moldarinnar um langt skeið, hann hefur afgerandi þekkingu og skilning á þessari dýrmætu auðlind. Ólafur hefur alla tíð helgað líf sitt fræðistörfum á sviði jarðvegs og vistkerfa og kennt ófáum háskólanemum allt um moldina og mikilvægi hennar.
Ólafur er fæddur í Reykjavík 5. janúar 1954. Foreldrar hans eru Ásdís Andrésdóttir Arnalds og Sigurður Arnalds, útgefendur.
Systkini Ólafs eru Sigurður f. 1947, Andrés f. 1948, Einar f. 1950 og samfeðra Jón Laxdal f. 1935 og Ragnar f. 1938.
Hrifu jafnvel barnið með sér
„Ég ólst upp í gamla Vesturbænum á Stýrimannastíg. Hverfið var frábært fyrir börn að alast upp, margir krakkar í hverfinu sem höfðu mikið frjálsræði. Flestir voru úti meginhluta dags utan skólatíma, örstutt niður í Slipp, út í Örfirsey eða niður í miðbæ.
Ég á ansi fjölbreyttar æskuminningar, mikill gestagangur heima fyrir, faðirinn og margir gestkomandi voru frábærir sagnamenn sem hrifu jafnvel barnið með sér. Man hlátrasköllin um húsið en sögurnar gáfu mér um leið tilfinningu fyrir erfiðri lífsbaráttu landans á fyrri hluta 20. aldar.
Vinir okkar bræðra voru heimagangar og það var iðulega mannmargt á Stýró og margir urðu vinir til lífstíðar. Móðirin hélt þessu öllu saman af miklu umburðarlyndi og veitti stuðning þegar hans var þörf.“
Merkileg flóra alþingismanna
„Ég gerðist þingsveinn á Alþingi þegar ég var 10 ára gamall og vann þar marga vetur. Þar kynntist ég merkilegri flóru alþingismanna um miðjan sjöunda áratuginn í miðju kalda stríðinu.
Ég vann m.a. fyrir peningum til að kaupa útvarp og segulband til að hljóðrita tónlist úr Kanaútvarpinu enda þótti popptónlist óæðri músik, óáran sem myndi ganga fljótt yfir og var lítið spiluð í útvarpi landsmanna.“
Háseti á síðutogara
„Ég gekk í Miðbæjarbarnaskólann sem enn stendur við Tjörnina. Man marga frábæra kennara, góða vini og skemmtilega tíma.
Á sumrin var ég í sveit nokkur sumur en einnig við ýmis sendlastörf. Ég byrjaði sem háseti á síðutogara 15 ára gamall og var til sjós fjögur sumur. Aflaði fjár til vetrarins, sem var nú ekki alltaf varið af skynsemi,“ segir Ólafur og brosir. „Síðar vann ég sem verkamaður við gerð brimvarnargarðs í Súgandafirði og eitt sumar sem fangavörður.
Ég fór í Menntaskólann í Reykjavík eins og fimm bræður mínir á undan mér. Ég tók virkan þátt í leiklistarlífinu (Herranótt) þar sem var oft glatt á hjalla.“
Ýmislegt brallað á Birkiteignum
Eiginkona Ólafs er Ása Lovísa Aradóttir prófessor í landgræðslufræðum við Landbúnaðarháskóla Íslands. Þau eiga tvö börn, Arndísi Ósk f. 1979 sem er verkfræðingur að mennt og Guðmund Ara f. 1994 mannfræðing og tónlistarmann. Barnabörnin eru tvö.
„Það er ýmislegt brallað hérna á Birkiteignum þegar barnabörnin koma í heimsókn, málað, lesið og spilað. Við reynum einnig að eiga góðan sameiginlegan tíma á sumrin í orlofshúsum sem og í sumarhúsi stórfjölskyldunnar við Álftavatn í Grímsnesi. Við hjónin ferðumst þar fyrir utan mjög mikið, bæði vegna starfa okkar og í frítíma, innanlands sem utan.“
Skíðaferðirnar stytta veturinn
„Við Ása höfum alltaf stundað útivist, áður fyrr voru lengri göngur með „allt á bakinu“ á dagskrá en nú eru göngurnar styttri. Gjarnan farið á tjaldsvæði við hálendisbrúnina eftir því sem vindar blása.
Við höfum farið í árlegar ferðir með félögum frá menntaskólaárunum í um 30 ár sem hafa verið mjög gefandi. Skíðaferðir til Ítalíu og víðar stytta veturinn og nú hafa vetrarferðir til heitari slóða í frí bæst við. Vera okkar í Bandaríkjunum telur sjö ár og þar höfum við ferðast mjög mikið. Vinnan kemur okkur líka til framandi staða, m.a. til ýmissa landa Afríku.
Konan mín er listfengur málari en ég stunda töluvert myndatökur með dróna. Náttúra landsins er bæði innblástur í lífinu en einnig viðfangsefni í starfi okkar sem náttúrufræðingar.“
Störfin hafa verið fjölbreytt
Störf Ólafs, bæði á meðan hann stundaði háskólanám og síðar, hafa tengst jarðvegi, landnýtingu, ástandi vistkerfa, landgræðslu o.fl. Hann hóf sumarstörf við beitarrannsóknir við Rannsóknarstofnun landbúnaðarins (RALA) sumarið 1976 og hefur starfað þar allar götur síðan, fyrst meðfram námi en síðar sem sérfræðingur og sviðsstjóri eftir að háskólanámi lauk.
„Ég varð prófessor eftir að RALA sameinaðist Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri með stofnun Landbúnaðarháskóla Íslands. Störfin hafa verið fjölbreytt og hafa meðal annars beinst að sérstökum eiginleikum moldar á eldfjallasvæðum jarðar í samvinnu við evrópska kollega, að rannsóknum á eiginleikum sem og flokkun íslensk jarðvegs, en einnig að sandfoki og ryki á Íslandi, ástandi lands og vistheimt.
Í upphafi stýrði ég kortlagningu á jarðvegsrofi á landinu öllu en síðar þróun gagnagrunns um landgerðir og bújarðir á Íslandi með verkefninu Nytjaland, auk rannsókna á moldinni. Ég hef átt marga frábæra samstarfsmenn og nemendur í gegnum tíðina.“
Mold ert þú
Störf Ólafs hafa jafnframt falið í sér kennslu og skriftir, m.a. á vísindagreinum og bókum en sl. vor kom út bók eftir hann, Mold ert þú – jarðvegur og íslensk náttúra, sem var búin að vera lengi í smíðum.
Mold ert þú er efnismikil og glæsileg bók þar sem fjallað er um jarðveg og umhverfismál frá mörgum hliðum. Hún skiptist í þrjá meginhluta, grunnþætti jarðvegsfræðinnar, íslenska mold og umhverfið. Þetta er fróðleg bók fyrir alla sem hafa áhuga á náttúrufræði.
Bókin er prýdd miklum fjölda ljós- og skýringarmynda sem unnar voru af Fífu Jónsdóttur.
Tónlistin ofarlega á blaði
Ólafur hlaut Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs árið 1998 fyrir kortlagningu á jarðvegsrofi á Íslandi. Eins var honum, eiginkonu hans og Andrési Arnalds veitt umhverfisviðurkenning umhverfisnefndar Mosfellsbæjar árið 2016 fyrir störf að umhverfismálum. Ólafur hlaut landgræðsluverðlaun Landgræðslu ríkisins árið 2018.
Ólafur lauk formlega störfum í janúar síðastliðnum, ég spyr hann að lokum hvað taki nú við? „Aðeins rólegri dagar,“ segir Ólafur og brosir en náttúra, útivist og samvera með fjölskyldu er efst á blaði. „Að ferðast, kynnast náttúrunni, sögu og menningu, það eru forréttindi þegar atvinna og áhugamál hafa farið saman eins og í mínu tilfelli. Mosfellsbær er hreint magnaður bær þegar kemur að útivistinni.
Tónlistin er líka alltaf ofarlega á blaði, það er gaman að pikka upp lög og gítarsóló sem kemur í veg fyrir liðagigt og eflir andann á ýmsa lund.“