Uppbygging í Mosfellsbæ

Korputún, atvinnukjarni í landi Blikastaða.

Regína Ásvaldsdóttir

Á komandi árum er gert ráð fyrir mikilli uppbyggingu atvinnu- og íbúðarhúsnæðis í Mosfellsbæ.
Að sögn Regínu Ásvaldsdóttur bæjarstjóra er lögð áhersla á að fjölga og auka fjölbreytni starfa í Mosfellsbæ í nýrri atvinnustefnu bæjarins.
Í dag er bæjarfélagið stærsti atvinnurekandinn með um eitt þúsund starfsmenn. Næst á eftir koma Reykjalundur og Matfugl þar sem hvor aðili er með um 150 starfsmenn. Þá kemur Reykjabúið með 66 störf og Ísfugl með um 50 störf. Þar á eftir hjúkrunarheimilið Hamrar með um 40 starfsmenn.

Okkur vantar fjölbreyttari störf
„Það vantar tilfinnanlega fjölbreyttari störf í bæjarfélagið og því eru ánægjuleg tíðindi að öflug fyrirtæki hafa sóst eftir lóðum á nýju svæði við Korputún auk þess sem uppbygging Skálatúns mun hafa í för með sér mikla fjölgun sérfræðistarfa,“ segir Regína.
Á lóð Skálatúns er ráðgert að koma fyrir að minnsta kosti þremur ríkisstofnunum sem þjónusta börn, unglinga og fjölskyldur þeirra. Það eru Barna- og fjölskyldustofa með 80 starfsmenn, Ráðgjafar– og greiningarstöð með 70 starfsmenn og Miðstöð menntunar og skólaþjónustu með 45 starfsmenn.
Um þessar mundir fer fram greining á húsnæðisþörf þessara stofnana og í framhaldinu verður auglýst eftir áhugasömum arkitektastofum til að vinna deiliskipulag á svæðinu. Þá fer fram nafnasamkeppni um heiti þessa nýja klasa. Gert er ráð fyrir að fleiri stofnanir og félagasamtök bætist við þegar fram líða stundir. Svæðið er mjög stórt, eða um sex hektarar, og að sögn Regínu getur það vel rúmað þá búsetukjarna sem eru fyrir og nýjar byggingar.

Uppbygging á Blikastaðalandi
En það er líka gert ráð fyrir fjölgun íbúða, meðal annars á Blikastaðalandi. Á fundi bæjarstjórnar í lok janúar var staðfest fundargerð skipulagsnefndar sem fjallaði um umsagnir og ábendingar vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á Blikastaðalandi.
Um var að ræða skipulagslýsingu sem var auglýst 13. desember í skipulagsgáttinni og höfðu íbúar og aðrir hagsmunaaðilar mánuð til að senda inn umsagnir sínar og ábendingar.
Skipulagslýsingin er fyrsta skrefið í samráði vegna fyrsta áfanga Blikastaðalands. Í lýsingu kom fram hvaða áherslur sveitarstjórn hefur við skipulagsgerðina, upplýsingar um forsendur verkefnisins, fyrirliggjandi stefna og fyrirhugað skipulagsferli samkvæmt lögum.
Í skipulagslýsingunni segir meðal annars að skipulagssvæði í fyrsta áfanga sé u.þ.b. 30-35 ha að stærð og liggi upp að núverandi byggð við Þrastarhöfða. Svæðið verður skilgreint sem íbúðarbyggð og miðsvæði.
Gert er ráð fyrir mögulegum 1.200-1.500 íbúðum sem skiptast muni í sérbýli, einbýlis-, par-, raðhús og fjölbýli eftir aðstæðum í landi og nálægð þeirra við helstu samgönguæðar. Þá er gert ráð fyrir grænum svæðum og einnig er markmiðið að skapa aðlaðandi bæjarmynd þar sem gamli Blikastaðabærinn er hjarta svæðisins og aðdráttarafl.

Svipuð þróun og frá aldamótum
„Fram undan er umfangsmikið samráð vegna skipulagsvinnunnar og er áætlað að sú vinna taki um eitt og hálft ár vegna fyrsta áfangans. Þannig má gera ráð fyrir að uppbygging fyrsta áfanga geti tekið allt að fjögur til fimm ár héðan í frá,“ segir Regína og bætir við að þróun uppbyggingar á Blikastaðalandi verði svipuð og þróun Mosfellsbæjar frá aldamótum.
„Ef við skoðum þróun Mosfellsbæjar síðastliðin 25 ár þá hefur íbúafjöldi bæjarins meira en tvöfaldast. Fjöldi íbúa í Mosfellsbæ var rúmlega 6 þúsund manns árið 2000.
Miðað við að uppbygging Blikastaðalands taki jafnlangan tíma, eða 25 ár, þá má gera ráð fyrir að íbúafjöldi Mosfellsbæjar verði orðinn 25 til 30 þúsund árið 2050. Þá er einnig tekið tillit til þess fjölda íbúða sem enn á eftir að byggja miðsvæðis í Mosfellsbæ og á óbyggðum svæðum í Helgafellshverfi.
Á Íslandi er ákall um meiri uppbyggingu húsnæðis, og á það ekki síst við núna í tengslum við eldgosin á Reykjanesi og rýmingu Grindavíkur. Horft er til norðurs í því samhengi og hvatt til hraðari uppbyggingar.
Við verðum að gera okkur grein fyrir að land er verðmæti, ekki síst þar sem hægt er að nýta dýra innviði og fjárfestingar sem fyrir eru í sveitarfélaginu. Það er mikilvægt fyrir Mosfellsbæ að geta boðið upp á góða þjónustu fyrir íbúana en til þess að það sé hægt þá þurfum við tiltekinn fjölda útsvarsgreiðenda og fyrirtækja til að standa undir henni.“