Það á ekki að kosta neitt að nota sína eigin peninga
Haukur Skúlason hefur starfað á fjármálamarkaði síðan 2005, í dag er hann framkvæmdastjóri Indó sparisjóðs og annar stofnenda hans. Samhliða störfum sínum hefur Haukur kennt fjölmörg námskeið á sviði fjármála, rekstrar og nýsköpunar.
Indó sparisjóður hóf starfsemi 30. janúar 2023. Starfsemin sker sig frá íslensku bönkunum með því að búa til samfélag í kringum þjónustuna þannig að hún hvetji til jákvæðrar hegðunar og markmiðasetningar, hvort sem það er í fjármálum eða á öðrum sviðum lífsins.
Haukur fæddist í Reykjavík 19. janúar 1974. Foreldrar hans eru þau Kristín Hauksdóttir gjaldkeri og Skúli Sigurðsson lögfræðingur en hann lést árið 1996.
Haukur á tvo bræður, Skúla f. 1977 og Sigurð f. 1981.
Endalaus uppspretta ævintýra
„Ég er alinn upp í Vesturbæ Reykjavíkur, á Melunum og í Skerjafirði og það var alveg frábært að alast upp á báðum þessum stöðum. Skerjafjörðurinn var afar skemmtilegur, mikið ævintýraland enda nýbyggð hús og húsagrunnar endalaus uppspretta ævintýra, ekki skemmir fyrir að konan mín ólst upp í sömu götu. Þarna var líka mikil bryggja sem notuð var af Skeljungi á sínum tíma til að dæla olíu af skipum á tanka, það var afar vinsælt að stelast þangað með veiðistöng í hönd og renna fyrir ufsa og marhnút.
Pabbi var duglegur að taka mig með sér á golfvöllinn á mínum yngri árum, við spiluðum saman á Nesvellinum sama hvernig viðraði. Þessi æskuminning er klárlega sú sem stendur upp úr,“ segir Haukur og brosir.
Byrjaði ungur að vinna
„Ég gekk í Mela- og Hagaskóla og var 5 ára þegar ég fór í fyrsta bekk og var því á undan í skóla. Maður fékk nú stundum að heyra það að maður væri yngri en bekkjarfélagarnir. Mér fannst almennt gaman í skólanum, gekk vel í námi og það fór lítið fyrir mér á þessum árum.
Ég byrjaði mjög snemma að vinna með skólagöngunni, frá 8 ára aldri bar ég út blöð en þegar ég var 12 ára þá starfaði ég sem sendill hjá Húsnæðisstofnun ríkisins. Ég fór í bæjarvinnuna á sumrin og svo starfaði ég tvö sumur hjá Vínbúðinni. Þegar í framhaldsskóla var komið þá starfaði ég sem einkaþjálfari.“
Leiðir okkar lágu saman aftur
„Eftir útskrift úr gagnfræðaskóla fór ég í Verzlunarskóla Íslands og eftir fjórða bekk þá fór ég í máladeild, sem var alveg frábært. Þar kenndi mér Árni Hermannsson latínukennari sem allir Verzlingar þekkja af góðu einu, hann hafði mikil áhrif á mig í náminu. Svo skemmtilega vildi til að mörgum árum síðar lágu leiðir okkar saman aftur en hann er í dag tengdafaðir minn og yndislegur afi barnanna okkar.“
Hef mikið dálæti á þessari íþrótt
Eiginkona Hauks er Elísabet Árnadóttir áhættustjóri hjá AtNorth. Börnin eru sex, Hlynur Hólm f. 1997, Skúli Hólm f. 2001, Agnes Kristín f. 2009, Alexander Atli f. 2009, Árni f. 2017 og Axel f. 2019. Haukur er nýorðinn afi og segist eiga fallegustu afastelpu sem hægt sé að hugsa sér en hún heitir Hilma Lóa.
„Við Elísabet eigum sumarbústað með vinafólki okkar og þangað reynum við fjölskyldan að skella okkur um helgar. Annars erum við að komast á þá skoðun að oft sé bara best að vera heima við og dandalast, gera sem minnst.
Ég er að að þjálfa Taekwondo hjá Aftureldingu og það er íþrótt sem ég hef mikið dálæti á og hef náð að draga meirihluta barna minna í það sport. Konan mín er aftur á móti dugleg í golfinu og við reynum að skjótast saman í það af og til.“
Öðlaðist mikla starfsreynslu
Haukur hóf störf hjá Íslandsbanka árið 2005 eftir að hafa lokið MBA námi í Bandaríkjunum en hann er einnig með BA í enskum bókmenntum og BSc í viðskiptafræði. Í bankanum öðlaðist hann mikla og verðmæta starfsreynslu bæði með því að fara á milli ólíkra deilda innan bankans og vinna að ótrúlega fjölbreyttum verkefnum.
„Ég hætti hjá Íslandsbanka 2014 því mér fannst útséð um að bankarnir myndu eiga frumkvæði að því að breyta nálgun sinni gagnvart neytendum. Ég gerðist fjármálastjóri Netgíró og starfaði þar í 18 mánuði en ákvað svo að taka mér verðskuldað fæðingarorlof með Árna mínum.“
Þetta þótti algjört glapræði
„Í fæðingarorlofinu fæddist sú hugmynd að stofna Indó, það þótti auðvitað algjört glapræði að ætla að stofna nýjan banka sem reyndist svo vera sparisjóður. Æskufélagi minn, Tryggvi Björn Davíðsson, gekk til liðs við mig en við höfum báðir töluverða reynslu af bankastarfsemi. Það sem dreif okkur áfram var sannfæringin fyrir því að bankaþjónusta á Íslandi þyrfti ekki að vera svona dýr, ópersónuleg og ógagnsæ.
Indó hóf starfsemi 30. janúar 2023 og við ætlum okkur að gera hlutina öðruvísi en bankar. Við ætlum að tala mannamál en ekki bankamál,“ segir Haukur ákveðinn á svip. „Við þekkjum öll þessi endalausu gjöld sem við þurfum að borga fyrir allt í bönkunum og svo þessi föstu gjöld sem fólk bara áttar sig jafnvel aldrei almennilega á. Það á ekki að kosta neitt að nota sína eigin peninga.“
Í krafti einfaldleikans
En hvernig getur Indó boðið betri kjör en bankarnir? „Í krafti einfaldleikans, við erum ekki að byggja upp gríðarlegan kostnaðarstrúktur heldur vitum við nákvæmlega hvað við viljum gera og hvað það kostar. Við búum til samfélag í kringum þjónustuna þannig að hún hvetji til jákvæðrar hegðunar og markmiðasetningar, hvort sem það er í fjármálum eða á öðrum sviðum lífsins.
Í dag erum við komin með 43 þúsund viðskiptavini og erum komin með alvöru markaðshlutdeild í kortaveltu, debetkortum og sparireikningum og það sannar að fólk er með okkur í liði. Hjá okkur er enginn feluleikur og ekkert bull, þetta er okkar leið til að gera heiminn betri.“
Þekking á ólíkum sviðum
„Það er auðvitað að mörgu að huga við að koma jafn flóknu fyrirtæki á legg því þekking á ólíkum sviðum þarf að koma saman eins og á markaðssetningu, regluumhverfinu, fjármálamörkuðum og kerfisinnviðum. Það er alveg ótrúlega gefandi að sjá hversu vel því hefur vegnað og því þökkum við fyrst og fremst því frábæra fólki sem starfar með okkur sem er hvert og eitt framúrskarandi á sínu sviði.
Framtíð Indó er í höndum viðskiptavinanna, við viljum að þeir séu ánægðir og að þeir geti treyst okkur. Okkar hlutverk er að halda okkar markmiðum og hlusta á hvað viðskiptavinir okkar vilja og það höfum við sannarlega gert,“ segir Haukur og brosir er við kveðjumst.