Látum verkin tala
Verkefni bæjarstjórnar eru af ýmsum toga. Úrlausnarefnin misstór og mikilvægi þeirra að sjálfsögðu mismunandi í augum einstakra bæjarbúa.
Öll verkefni sem upp koma þarf að skoða og meta frá öllum hliðum, í samhengi við fjárhagslega hagsmuni bæjarsjóðs, með tilliti til lagaumhverfis sveitarfélaga og út frá pólitískri sýn meirihlutans, þ.e. hverju við viljum áorka í okkar starfi.
Markmið okkar koma fram í málefnasamningi sem aðgengilegur er á mos.is. Leiðarljósið er alltaf að gæta almannahagsmuna og viðhafa gagnsæi og lýðræðisleg vinnubrögð varðandi allar ákvarðanir. Vönduð vinnubrögð taka sinn tíma og við tökum okkur þann tíma sem þarf.
Hér á eftir eru listuð upp nokkur viðfangsefni sem hefur verið siglt í höfn á fyrstu 16 mánuðum okkar starfs.
• Skálatún. Rekstur heimilisins kominn til Mosfellsbæjar og unnið að samþættingu.
• Kvíslarskóli. Verður sem nýr eftir gagngerar og löngu tímabærar endurbætur.
• Stjórnsýsluúttekt. Löngu tímabær úttekt og skipulagsbreytingar sem miða að skilvirkari og betri þjónustu við bæjarbúa.
• Stafræn vegferð. Umbætur á sviði stafrænnar þróunar komnar vel af stað.
• Lengdur opnunartími sundlauga á virkum dögum.
• Opnunartími félagsmiðstöðva lengdur allt árið.
• Nýr gervigrasvöllur með vökvunargræjum.
• Afturelding hefur fengið styrktaraðstöðu.
• Hlégarður kominn heim. Starfsemin lofar sannarlega góðu um framhaldið.
• Aðgengisfulltrúi.
• Samningur við Samtökin78 um hinsegin fræðslu til starfsfólks og ungmenna.
• Efling talmeinaþjónustu og ráðgjafar til barna.
• Vinna hafin við leikskóla í Helgafellslandi.
• Samningar um 22 rýma stækkun hjúkrunarheimilis til viðbótar við þau 44 rými sem áður var samið um.
• Fjölgun rýma í dagdvöl aldraðra um sex. Rýmin verða þá 15 talsins.
• Skóflustunga að nýjum búsetukjarna fyrir fatlaða, sem Þroskahjálp byggir með stofnframlagi frá Mosfellsbæ og bærinn mun reka.
• Samningar um 60 minni íbúðir fyrir fyrstu kaupendur sem uppfylla skilyrði HMS um hlutdeildarlán.
• Næturstrætó um helgar, sem við álítum vera öryggismál.
• Samningur við Hopp til að auka fjölbreytni í ferðakostum innanbæjar.
• Stefna í atvinnumálum, löngu tímabær.
• Samningur um markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins.
• Tekið hefur verið á móti um 40 flóttamönnum sem flestir eru komnir með vinnu.
• Gott að eldast. Þátttaka í þróunarverkefni um samþættingu félags-og heilbrigðisþjónustu í heimahúsum.
Þessi listi er ekki tæmandi heldur sýnir hann stór og lítil verkefni sem öll eru mikilvæg, hvert á sinn hátt.
Á bæjarfulltrúum hvílir sú skylda samkvæmt sveitarstjórnarlögum að gegna starfi sínu af alúð og samviskusemi. Sveitarstjórnarmönnum ber í hvívetna að gæta að almennum hagsmunum íbúa sveitarfélagsins sem og öðrum almannahagsmunum. Þessi grein laganna er okkar leiðarljós í allri okkar vinnu innan bæjarstjórnar.
Ábyrgðin er gríðarleg, enda hefur bæjarstjórn ákvörðunarvald um nýtingu tekjustofna, lántökur og ráðstöfun eigna og um framkvæmd verkefna sveitarfélagsins.
Þá hvílir sú ábyrgð á bæjarstjórn að sjá til þess að lögbundnar skyldur séu ræktar og enn fremur hafa eftirlit með því að fylgt sé viðeigandi reglum í störfum sveitarfélags.
Við tökum þessa ábyrgð alvarlega og leggjum mikinn metnað í að sinna okkar störfum af kostgæfni og heiðarleika. Við höldum ótrauð áfram að vinna að verkefnum úr málefnasamkomulagi okkar flokka og að taka á þeim verkefnum sem upp koma á hverjum tíma af ábyrgð, festu og heiðarleika í sem bestu samstarfi við minnihlutann og ætíð með almannahagsmuni að leiðarljósi.
Anna Sigríður Guðnadóttir oddviti Samfylkingar
Halla Karen Kristjánsdóttir oddviti Framsóknar
Lovísa Jónsdóttir oddviti Viðreisnar