Áframhaldandi uppbygging í Helgafelli

Valdimar Birgisson

Á fundi bæjarráðs þann 16. mars sl. samþykkt bæjarráð úthlutunarskilmála fyrir fyrri hluta útboðs lóða í 5. áfanga Helgafellshverfisins.
Áfanginn samanstendur af fjölbreyttu formi íbúða, alls 151 íbúð við götu sem hefur fengið nafnið Úugata. Byrjað er á því að bjóða út lóðir fyrir raðhús og fjölbýlishús sem verður úthlutað til hæstbjóðenda. Gert er ráð fyrir því að uppbygging á þessum lóðum geti hafist strax í sumar.
Gangi vinna við gatnagerð í síðari hluta áfangans áfram sem horfir verður hægt að úthluta lóðum fyrir par- og einbýlishús í september á þessu ári.
Sérstaklega ánægjulegt er að í þessum áfanga í uppbyggingu Helgafellslands er hugað að fjölbreyttu búsetuformi og gert ráð fyrir bæði íbúðakjarna fyrir fatlaða auk þess sem úthlutað er í fyrsta sinn í Mosfellsbæ lóð til Bjargs íbúðafélags.

Íbúðakjarni fyrir fatlaða
Flestir íbúðakjarnar í bænum hafa ekki verið byggðir sérstaklega sem íbúðir fyrir fólk með langvarandi stuðningsþarfir heldur hefur hentugt húsnæði verið keypt þar sem hægt hefur verið að þjónusta þennan hóp.
Það er því einstaklega ánægjulegt að í fyrsta sinn síðan sveitarfélög tóku yfir málaflokk fatlaðs fólks er nú úthlutað sérstaklega lóð til uppbyggingar á íbúðakjarna fyrir fatlaða í Mosfellsbæ. Mikilvægt er að bæjarfélag eins og Mosfellsbær sinni af metnaði þeirri samfélagslegu skyldu sinni að tryggja fötluðum viðeigandi húsnæði.
Í samræmi við málefnasamning meirihlutans þá hefur velferðarnefnd falið velferðarsviði að greina búsetuþörf fatlaðs fólks með langvarandi stuðningsþarfir til framtíðar svo unnt verði að gera ráð fyrir sambærilegum búsetukjörnum á framtíðaruppbyggingarsvæðum í bænum.

Bjarg íbúðafélag
Bjarg íbúðafélag er sjálfeignarstofnun sem hefur það markmið að bjóða tekjulágum fjölskyldum örugga langatímaleigu á hagstæðum kjörum. Nú hefur lóð fyrir 24 íbúða fjölbýlishús verið úthlutað til félagsins og því styttist í að Mosfellingum standi þetta búsetuúrræði til boða í okkar heimabæ.

Einstakar lóðir fyrir sérbýli
Ekki er hægt fjalla um þennan áfanga í uppbyggingu Helgafells án þess að minnast á hinar einstöku sérbýlislóðir sem verður úthlutað í haust. Hér sameinast þeir tveir kostir í sérbýlishúsalóðum sem eru hvað eftirsóttastir, þ.e. fallegar lóðir mót suðri með einstöku útsýni.
Það er ánægjulegt að uppbygging í Helgafellslandinu haldi áfram og vonir standa til þess að hægt verði að halda áfram með þá áfanga sem enn eru eftir á næstu misserum. Þegar hverfið verður fullbyggt er gert ráð fyrir að þar verði 3.000 íbúðir.

Valdimar Birgisson,
formaður skipulagsnefndar