Uppbygging leikskóla í Mosfellsbæ

Aldís Stefánsdóttir

Síðustu vikur hefur verið að störfum starfshópur um uppbyggingu leikskóla í Mosfellsbæ. Tilurð hópsins má rekja til þess að nauðsynlegt þótti að rýna betur í áætlanir sveitarfélagsins um byggingu annars leikskóla í Helgafellslandi.
Frá því að upphaflegar áætlanir voru settar fram um mitt síðasta ár hefur kostnaður við byggingu skólans aukist um 56% bæði vegna verðlagshækkana og einnig vegna kostnaðar við að byggja á óhentugri lóð. Heildarkostnaður hefur verið áætlaður um 1900 milljónir en það er án búnaðar. Þessa kostnaðaráætlun þarf að endurskoða í heild sinni. Það væri óábyrgt af núverandi meirihluta að gera það ekki og gefa sér ekki tíma til að ræða hvort þetta sé besta leiðin fyrir Mosfellsbæ.
Á sama tíma og bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vilja drífa í þessu og bjóða út bygginguna eru önnur sveitarfélög að fá engin tilboð eða tilboð sem eru langt umfram kostnaðaráætlun í sambærilegar byggingar. Tímasetningin á því að bjóða út slíkt verk hefur því verið einstaklega óhentug þar sem mikil þensla er á byggingamarkaði. Við sjáum það líka á öðrum verkefnum en eins og komið hefur fram þá bárust engin tilboð í þjónustubyggingu við Varmá í vor.

Niðurstaða
Niðurstaða starfshópsins er að það sé vissulega heppilegast að byggja annan leikskóla í Helgafellslandi. Það geti þó ekki verið fyrir opinn tékka. Við verðum að setja okkur raunhæf markmið og ná byggingarkostnaði niður. Það er hægt að gera með ýmsum hætti og einn af þeim þáttum sem hefur áhrif eru tímasetningar. Bæði hvenær boðið er út og hvaða tímarammi er á verkinu sjálfu. Því meira sem við flýtum okkur því hærri kostnaður.
Niðurstaða hópsins er einnig sú að Mosfellsbær geti áfram stækkað leikskólastarfsemi sína og tekið á móti þeim fjölda barna sem þurfa pláss á allra næstu árum þó að leikskólinn verði ekki byggður alveg strax. Kostnaðurinn við það verður alltaf réttlætanlegur og aðstaðan nýtt til framtíðar.

Áframhaldandi góð þjónusta
Mosfellsbæ hefur vegnað vel að takast á við aukinn fjölda leikskólabarna á síðustu árum og náð að bæta þjónustuna við ung börn á sama tíma og bærinn stækkar. Nýr meirihluti mun taka við keflinu og halda uppbyggingunni áfram. Það er þó mikilvægt að gæta að því að rekstur leikskóla snýst ekki bara um húsnæði. Starfsumhverfið í leikskólum og „vinnudagur“ leikskólabarna er eitthvað sem við sem samfélag þurfum að ræða og takast á við. Það er mikilvægt í þessu samhengi að muna að eitt hentar ekki öllum þegar kemur að þjónustu við ung börn og fjölskyldur þeirra og fjölbreytni er mikilvæg. Stórar einingar, litlar einingar, dagforeldrar, einkareknir skólar og jafnvel heimgreiðslur til foreldra ættu allt að vera leiðir sem hægt er að fara í þessum efnum.
Undirrituð þakkar öllum sem að vinnunni komu en í hópnum voru fulltrúar frá meirihluta og minnihluta í bæjarstjórn ásamt starfsfólki Mosfellsbæjar. Það var gagnlegt að taka samtalið í þessu ferli og ég hlakka til áframhaldandi samstarfs þar sem raddir allra fá að heyrast og viðhöfð eru lýðræðisleg vinnubrögð.

Aldís Stefánsdóttir,
bæjarfulltrúi Framsóknar