Fjórir Mosfellingar í landsliðinu

Jason Daði, Róbert Orri, Ísak Snær og Bjarki Steinn.

Fjórir leikmenn, sem uppaldir eru hjá Aftureldingu, komu við sögu í tveimur vináttuleikjum A-landsliðsins Íslands í knattspyrnu á dögunum.
Fyrri leikurinn fór fram þann 6. nóvember þar sem Ísland tapaði 1-0 fyrir Saudi-Arabíu, síðari leikurinn var 10. nóvember við Suður-Kóreu en sá leikur tapaðist líka með einu marki.

Fyrstu skrefin á stóra sviðinu
Leikmennirnir, sem allir gengu í Lágafellsskóla, eru Jason Daði Svanþórsson, Róbert Orri Þorkelsson, Ísak Snær Þorvaldsson og Bjarki Steinn Bjarkason. Allir voru þeir að stíga sín fyrstu skref fyrir A-landsliðið nema Jason Daði.
Þessir efnilegu knattspyrnumenn eiga framtíðina fyrir sér en þess má geta að þeir Ísak Snær og Jason Daði eru nýkrýndir Íslandsmeistarar með Breiðabliki ásamt markmanninum Antoni Ara Einarssyni sem einnig var tilnefndur í landsliðshópinn en gaf ekki kost á sér að þessu sinni.

Atvinnumenn framtíðarinnar
Ísak Snær samdi nýverið við norska stórliðið Rosenborg, Róbert Orri leikur með Montreal í Kanada og Bjarki Steinn hefur verið í atvinnumennsku hjá ítalska liðinu Venezia síðastliðin tvö ár. Jason Daði er leikmaður Breiðabliks í Bestu deildinni og vitað er af áhuga erlendra liða á þessum efnilega leikmanni.