Útsvar og fasteignagjöld

Anna Sigríður Guðnadóttir

Í málefnasamningi Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar segir að álagningarprósentur fasteignagjalda verði lækkaðar til að koma til móts við hækkun fasteignamats og í fyrirliggjandi fjárhagsáætlun er staðið við það markmið meirihlutans.
Það er ánægjulegt að hægt sé að standa við þessa lækkun án þess að þurfa að skera niður í þjónustu við bæjarbúa heldur þvert á móti að geta svarað kalli um aukna grunnþjónustu og áframhaldandi innviðauppbyggingu.

Við fyrri umfjöllun um fjárhagsáætlun í bæjarstjórn lögðu bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks fram breytingartillögu um óbreytt útsvar og lækkun álagningar fasteignagjalda þannig að raunhækkun verði ekki umfram vísitölu.
Rétt er að taka fram að hér er um nýja nálgun að ræða sem aldrei hefur verið notuð í Mosfellsbæ. Breytingartillagan myndi þýða 147 milljóna kr. lægri tekjur sveitarfélagsins og til að mæta þessari lækkun leggja þau til að áætlaðar tekjur af byggingarrétti verði hækkaðar.

Fasteignagjöld

Lovísa Jónsdóttir

Í fjárhagsáætlun sem farið hefur í gegnum fyrri umræðu var, við ákvörðun um álagningarprósentur fasteignagjalda, stuðst við sömu aðferð og notuð hefur verið undanfarin ár. Heildarálagning lækkar úr 0,684% í 0,660%.
En hvað þýða breyttar álagningarprósentur fyrir íbúa? Fyrir íbúðarhúsnæði með fasteignamat árið 2023 upp á 99.350.000 kr., og hækkun á fasteignamati frá 2022 um 32,37%, þá hækka fasteignagjöld samtals um 1.657 kr. á mánuði umfram verðlag.
Við viljum ekki gera lítið úr því að þessi hækkun getur verið áskorun fyrir þá tekjulægri en við viljum vekja athygli á því að afslættir Mosfellsbæjar af fasteignagjöldum til eldri borgara og öryrkja eru með þeim hæstu sem veittir eru á höfuðborgarsvæðinu.

Útsvar
Útsvarið er í fjárhagsáætluninni hækkað upp í löglegt hámark eða 14,52%. Það hefur verið helsta gagnrýni ríkisins í samningaviðræðum um tekjustofna sveitarfélaga að á sama tíma og sveitarfélögin eru að óska eftir auknum framlögum frá ríkinu til þess að standa undir lögbundinni þjónustu þá séu sveitarfélögin ekki að fullnýta tekjustofna sína.
Fyrir Mosfellsbæ er mjög mikilvægt að unnt verði að semja við ríkið um hækkun tekjustofna, sérstaklega því að við viljum geta staðið að því með sóma að veita fötluðum íbúum þá lögbundnu þjónustu sem þeir eiga rétt á.

Halla Karen Kristjánsdóttir

Áhrif á íbúa
Hækkun á útsvarinu þýðir samtals tekjuaukningu upp á 26 milljónir kr. á árinu 2023 eða að meðaltali hækkun um 250 kr. á mánuði fyrir hvern útsvarsgreiðanda.

Ábyrg fjármálastjórn
Í ábyrgri fjármálastjórn sveitarfélags er mikilvægt að tryggja að tekjur af rekstri sveitarfélagsins standi undir kostnaði við þá þjónustu sem sveitarfélög veita enda er hún ótímabundin. Þar af leiðandi þarf að tryggja að veiting þjónustunnar sé ekki háð því að einskiptistekjur, eins og tekjur af byggingarrétti, skili sér til sveitarfélagsins.

Þær tekjur sem sveitarfélagið fær samkvæmt fyrirliggjandi fjárhagsáætlun gera okkur kleift að bæta þjónustu við börn, fatlaða og eldra fólk ásamt því að styrkja stjórnsýslu bæjarins svo hægt verði að standa undir þeim stóru verkefnum sem fram undan eru. Eins er hugað að því að dreifa byrðunum af fyrirhugaðri uppbyggingu bæjarins, bæði á núverandi íbúa og íbúa framtíðarinnar, með því að einskiptistekjur eins og af byggingarrétti séu nýttar í þessa uppbyggingu.

Anna Sigríður Guðnadóttir, oddviti Samfylkingar
Lovísa Jónsdóttir, oddviti Viðreisnar
Halla Karen Kristjánsdóttir, oddviti Framsóknar