Bæjarblað í tvo áratugi
Bæjarblaðið Mosfellingur var stofnað haustið 2002 og fagnar því um þessar mundir 20 ára afmæli. Blaðið kemur út á þriggja vikna fresti og er dreift frítt í öll hús í Mosfellsbæ.
Mosfellingur er frítt, frjálst og óháð bæjarblað sem flytur jákvæðar og skemmtilegar fréttir af því helsta sem gerist í Mosfellsbæ.
Stofnandi blaðsins er Karl Tómasson og stýrði hann blaðinu fyrstu þrjú árin. Frá árinu 2005 hefur blaðið verið í umsjá Hilmars Gunnarssonar sem ritstýrt hefur blaðinu í 17 ár.
Skemmtilegast að fá viðbrögð
„Blaðið hefur vaxið jafnt og þétt í gegnum tíðina og ávallt vegið þungt í menningarlífi og allri umræðu í sveitarfélaginu,“ segir Hilmar Gunnarsson ritstjóri Mosfellings. Blaðið leysti fljótt af hólmi þau pólitísku blöð sem gefin voru út, hvert í sínu horni.
„Skemmtilegast hefur verið að fá viðbrögð bæjarbúa sem virðast njóta þess að fá fréttir úr heimabyggð beint í æð. Gallup gerði könnun á lestri blaðsins fyrir skömmu og kom þar bersýnilega í ljós sá áhugi sem Mosfellingar hafa á nærsamfélaginu en 90% bæjarbúa lesa blaðið. Það er virkilega ánægjulegt að sjá það svart á hvítu.“
Rekstur sem grundvallast af auglýsingatekjum
„Ég vil nota tækifærið og þakka því góða fólki sem hefur tekið þátt í þessari vegferð með okkur og þeim fyrirtækjum sem auglýsa í blaðinu og gera það að verkum að hægt er að halda úti bæjarblaði í Mosfellsbæ.
Mosfellingur er rekinn eingöngu af auglýsingatekjum. Karl Tómasson á þakkir skildar fyrir sinn drifkraft í blaðaútgáfu og fyrir að treysta mér fyrir framhaldinu.
Á síðustu árum höfum við auk prentmiðilsins haldið úti öflugu upplýsingaflæði til bæjarbúa í gegnum Facebook, Instagram og heimasíðu blaðsins. Það nýjasta er svo Mosfellingur í beinni, sem hóf göngu sína á Instagram fyrir kosningar. Samfélagsmiðlar koma og fara en prentað eintak Mosfellings viljum við halda í sem allra lengst.“
Gleðst yfir þessum tímamótum
„Eftir nokkurra ára stúss í blaðamennsku með heiðursmönnunum, Gylfa Guðjónssyni og Helga Sigurðssyni og síðar á hinum pólitíska vettvangi sem ritstjóri Sveitunga, sem var málgagn vinstri manna, ákvað ég að stofna mitt eigið blað, Mosfelling,“ segir Karl Tómasson.
„Lína mín var fljót að finna nafn á blaðið og kom með margar góðar hugmyndir að föstum liðum í blaðinu sem ég gleðst mikið yfir að eru sumir enn á sínum stað, 20 árum síðar. Ég gleðst innilega yfir þessum tímamótum og óska Hilmari Gunnarssyni og aðstandendum öllum til hamingju.“
Blað allra Mosfellinga
„Þegar ég stofnaði Mosfelling var alltaf ljóst að blaðið ætti að vera allra Mosfellinga, óháð öllum pólitískum flokkadráttum. Það gekk upp og er blaðið sannarlega allra.
Þegar ég tók svo slaginn á hinum pólitíska vettvangi í Mosfellsbæ gerði ég mér grein fyrir að á sama tíma gat ég ekki verið eigandi og ritstjóri slíks málgagns.
Minn helsti aðstoðarmaður og vinur kom strax upp í hugann sem arftaki minn og ég var alltaf viss um að betri mann gæti ég ekki fengið. Hilmar minn, nokkur persónuleg orð til þín kæri vinur. Þú ert engum líkur, fagmaður fram í fingurgóma, alltaf boðinn og búinn og gerir allt svo vel. Til hamingju með besta og flottasta bæjarblað á landinu,“ segir Karl Tómasson.