Ungt fólk hefur alltaf heillað mig

Örlygur Richter fyrrverandi skólastjóri var sæmdur heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu.

Örlygur Richter var sæmdur heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf á vettvangi félags- og skólamála við hátíðlega athöfn á Bessastöðum þann 17. júní sl.
Örlygur hefur starfað lengi við stjórnunarstörf, hann segir að í upphafi hafi það verið áskorun en hann hafi alla tíð reynt að vera sá leiðtogi sem ekki skipar fyrir, heldur sá sem kann að hlusta.

Örlygur er fæddur á Holtsgötu 41 í Reykjavík 7. september 1944. Foreldrar hans eru Margrét Hjaltested Richter húsmóðir og Ulrigh Richter afgreiðslustjóri hjá Flugfélagi Íslands.
Örlygur á tvö systkini, Sigurð H. Richter­ ­náttúrufræðing f. 1943 og Mörtu Hildi Richter bókasafnsfræðing f. 1949.

Ræktaði páfagauka í risinu
„Ég er alinn upp í Hlíðunum í Reykjavík, þetta var frábært hverfi og mikið af strákum á mínum aldri og ég eignaðist marga vini. Á þessum árum var maður í fótbolta og í skátunum.
Pabbi hafði alltaf mikinn áhuga á dýrum og í risinu ræktaði hann m.a. páfagauka. En þar var líka fullt af öðrum dýrum allt frá gullhömstrum til hettumáfs. Þarna glímdi maður við að kenna páfagaukum að sitja á putta og öxl og gera alls kyns kúnstir, mér fannst þetta æðislegt,“ segir Örlygur og brosir.

Leynifélagið Hrói höttur
„Í Hlíðunum hófst félagsstarf mitt ef svo má segja þegar við Baldur Marinósson og Steindór Hálfdánarson vinir mínir stofnuðum á barnaskólaaldri leynifélagið „Hróa hött“ og við tók smíði á trésverðum, skjöldum og bogum. Því fylgdu svo fundahöld í geymslu uppi á lofti hjá Baldri. Á loftinu bjó líka amma Baldurs og hún kenndi mér að prjóna.
Ég virkaði víst dálítið ábyrgur og hafði gott lag á börnum, svo sumar mömmurnar í götunni báðu mig stundum um að passa, ég hafði gaman af því.“

Félagsstarfið á næstu grösum
„Ég byrjaði í Ísaksskóla, fór þaðan í æfingadeild Kennaraskólans og svo í Gagnfræðaskóla Austurbæjar. Mér fannst skemmtilegt í skólanum og á enn góða vini frá þessum tíma.
Í gaggó var maður orðinn unglingur, gekk í svörtum gallabuxum með hvítum saum, bússum og vatteraðri mittisúlpu. Félagsstarfið var alltaf á næstu grösum og ég komst í ritstjórn skólablaðsins Blyssins þar sem ég var seigur að teikna.
Á sumrin með skólagöngunni vorum við fjölskyldan mikið uppi í sumarbústaðnum okkar við Reynisvatn, plöntuðum trjám og fórum í útreiðartúra.“

Langaði að starfa með unglingum
„Ég lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1964. Á árunum 1967-1971 starfaði ég í hálfu starfi sem framkvæmdastjóri Skátasambands Reykjavíkur. Næst kom stutt stans í Háskóla Íslands, nám í Kennaraskólanum þaðan sem ég útskrifaðist sem kennari 1968. Ég hafði nefnilega fundið út að mig langaði til að vinna með unglingum.
Utan þessa hafði ég mikinn áhuga á alls kyns myndlist og var svo heppinn að fá tilsögn hjá Halldóri Péturssyni teiknara og listmálara.
Á sumrin starfaði ég hjá Flugfélagi Íslands og það var virkilega gaman að kynnast þeim geira.“

Fannst þetta spennandi verkefni
Eftir útskrift úr Kennaraskólanum hóf Örlygur störf sem kennari við Álftamýraskóla þar sem hann starfaði í áratug. Við tók yfirkennarastaða í Ölduselsskóla og síðar skólastjórastaða í Fellaskóla 1985-2000. Frá árunum 2001-2014 starfaði Örlygur sem fjármálastjóri.
Í yfir 20 ár starfaði hann við skrautritun skjala o.þ.h. ásamt því að teikna grínmyndir af útskriftarnemum ýmissa skóla.
„Ég hef alltaf haft áhuga á fólki og ekki síður lífinu sjálfu. Ástæða þess að ég vildi starfa með unglingum í skóla var að mér fannst það spennandi verkefni. Að fá tækifæri til að kenna þeim á lífið í gegnum almenna kennslu og ekki síður í gegnum félagsstörf.
Ungt fólk er nefnilega svo hugmyndaríkt. Ef þú færð góða hugmynd þá er næst að kanna sjálfur hvort hægt sé að framkvæma hana. Nú ef hún gengur svo ekki upp, þá er bara að fá aðra góða hugmynd. Svo er líka gaman að rökræða við ungt fólk, það skilur svo vel rökrétta niðurstöðu.“

Að fara í stjórnunarstörf var áskorun
„Það sem stendur upp úr frá ferlinum er að ég hef borið gæfu til að eiga góða félaga, frábært samstarfsfólk og skemmtilega nemendur. Að fara í stjórnunarstörf var áskorun, ég hef alla tíð reynt að vera leiðtogi, ekki sá sem skipar fyrir, heldur sá sem kann að hlusta. Fá hópinn til að rökræða og finna með honum bestu lausnina og framkvæma hana.
Að fá fálkaorðuna fyrir störf á vettvangi félags- og skólamála bendir vonandi til þess að ég hafi gert eitthvert gagn,“ segir Örlygur og brosir.

Höfum gaman af að ferðast
Eiginkona Örlygs er Helga Richter fv. aðstoðarskólastjóri og fv. bæjarfulltrúi í Mosfellsbæ. Börn þeirra eru Aðalsteinn f. 1974 og Rannveig f. 1978.
„Við hjónin höfum haft mjög gaman af því að ferðast, við leigðum stundum bíl í Kaupmannahöfn og ókum suður alla Evrópu og sváfum í tjaldi eða gistum á hótelum.
Í seinni tíð höfum við verið að fara í golfferðir og loks tóku Kanarí og Tenerife við, líklega ræður aldurinn þar nokkru.
Við skjótumst líka með börnunum okkar og fjölskyldum þeirra í ferðir erlendis.“

Hef sinnt alls kyns félagsstarfi
„Félagsstörf hafa alltaf átt stóran part í mínu lífi, konan mín segir gjarnan að ég sé félagsmálafíkill,“ segir Örlygur og hlær. Ég hef verið í alls kyns félagsstarfi, m.a Oddfellowreglunni, Rótarýhreyfingunni, Skarphéðingafélaginu og Skátahreyfingunni.
Á skátaskemmtunum í gamla daga lærði ég ýmislegt m.a um leikstjórn og að stjórna stórum skemmtunum sem kom sér vel við að efla félagslíf nemenda í grunnskólum og eins í félögum sem ég hef komið nálægt.“

Settu upp á annan tug revía
„Í Karlakórnum Stefni urðu líka til á sínum tíma tvær hljómsveitir af praktískum ástæðum. Þessar hljómsveitir spiluðu á skemmtunum hjá kórnum og víða á suðvesturhorni landsins. Þetta var skemmtilegur tími, þarna spiluðu með mér Grímur Grímsson, Hans Þór Jensson, Kristján Finnsson, Páll Helgason og fleiri.
Þegar þurfti að afla peninga vegna utanferða kórsins þá fórum við kórfélagarnir í það að halda skemmtikvöld. Þar gat ég orðið að örlitlu liði með uppsetningu skemmtiatriða og stjórnun skemmtana ásamt mörgum frábærum félögum.
Kórinn setti upp á annan tug revía og skemmtikvöld með balli á eftir. Þessar skemmtanir voru vel sóttar og við skemmtum okkur jafn vel og gestirnir,“ segir Örlygur og glottir að síðustu.