Smass hefur opnað í Háholti

Mosfellingurinn Magnús Jökull á Smass í Háholti.

Þann 23. september var opnaður nýr Smass hamborgarastaður í Háholti í Mosfellsbæ.
Þetta er fjórði staðurinn sem við opnum á tæpum tveimur árum. „Við erum nokkrir félagar úr Vesturbænum sem opnuðum fyrsta staðinn fyrir tæpum tveimur árum.
Við höfum fengið frábærar viðtökur og þar sem yfirkokkurinn okkar, hann Magnús Jökull, er Mosfellingur lá beinast við að opna næsta stað í Mosó,“ segir Guðmundur Óskar, einn af eigendum Smass.

Sérstakt bragð af Smass borgurum
„Okkur fannst vanta þennan stíl af hamborgurum á íslenskan markað, smass hamborgarastíllinn er í raun elsta leiðin til að gera hamborgara og hefur verið mjög vinsæl að undanförnu, sérstaklega í Bandaríkjunum. Þú tekur tvær kúlur í staðinn fyrir eitt buff og þrýstir þeim fast á sjóðheita pönnu til að brúna kjötið og fá þetta góða bragð. Við bjóðum upp á nokkar týpur af borgurum og hefðbundið meðlæti, það er líka hægt að fá hjá okkur bæði vegan og ketó útgáfur af hamborgurum,“ segir Guðmundur og er himinlifandi yfir móttökunum hjá Mosfellingum á fyrstu dögunum.

Alvöru hamborgarar
„Fljótlega eftir opnun á fyrsta staðnum okkar þá gekk Magnús til liðs við okkur sem yfirkokkur en hann er lærður matreiðslumeistari. Það er hann sem masterar uppskriftirnar og ferlana í framleiðslunni hjá okkur og sér um að allt fari rétt fram. Hann var búinn að tala lengi um að það vantaði alvöruhamborgara í Mosó,“ segir Guðmundur að lokum og hlær.
Staðurinn er opinn alla daga kl. 10:30-20:00 og mun á næstunni líka bjóða upp á netpantanir og heimsendingu.