Gaman saman í Mosó
Eftir tveggja ára bið og mikla tilhlökkun var bæjarhátiðin okkar, Í túninu heima, loksins haldin dagana 26. – 28. ágúst síðast liðinn.
Það var fjöldinn allur af áhugaverðum, fjölbreyttum og flottum viðburðum í boði auk þess sem gamlir siðir voru teknir upp á ný með endurkomu Útvarps Mosfellsbæjar, sem ég vona að verði áframhaldandi siður á bæjarhátíðinni.
Við hjá menningar- og nýsköpunarnefnd Mosfellsbæjar fengum það heiðurshlutverk að ferðast um bæinn og dæma í hinni árlegu skreytingakeppni hverfanna. Það var yndislegt að sjá fólk á öllum aldri þeysast um bæinn okkar og njóta þeirrar dagskrár sem var í boði.
Það er ekki spurning að allir þeir sem voru með viðburði eða tóku þátt í að skreyta húsin sín eiga margfalt hrós skilið því það er einmitt það sem gerir bæjarhátíðinni í Mosfellsbæ kleift að standa undir heitinu „Í túninu heima“.
Við í dómnefndinni vorum svo sannarlega látin hafa fyrir því að velja sigurvegarana þar sem auðséð var að mikill metnaður og vandvirkni hafði verið sett í að skreyta hús bæjarbúa.
En svona hátíðir þarfnast mikillar vinnu, bæði frá þeim sem eru með viðburði en ekki síst þeirra sem skipuleggja hátíðina og vil ég hrósa þeim sem komu að því að skipuleggja hátíðina og þá sérstaklega honum Hilmari Gunnarssyni. Í Mosó hefur alltaf verið best að búa en nú leikur enginn vafi á því, takk fyrir mig Mosó.
Franklín Ernir Kristjánsson,
menningar- og nýsköpunarnefnd