Helstu fréttir af framgangi málefnasamnings

Nýr meirihluti Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar hefur nú tekið til starfa í bæjarstjórn Mosfellsbæjar og hlökkum við nýkjörnir bæjarfulltrúar til að takast á við þau fjölmörgu verkefni sem bíða okkar.
Í anda gagnsæis og lýðræðislegra vinnubragða munum við taka upp þá nýbreytni að upplýsa hér í Mosfellingi með reglubundnum hætti um helstu verkefni sem við erum að takast á við á hverjum tíma. Verkefnin eru mýmörg og þess vegna munum við stikla á stóru og fyrst og fremst upplýsa bæjarbúa um nýjar ákvarðanir eða framgang verkefna úr málefnasamningi okkar.

Bæjarstjóri
Í samræmi við ákvörðun meirihlutans þá hefur staða bæjarstjóra verið auglýst laus til umsóknar og er umsóknarfrestur til 28. júní.

Kvíslarskóli
Framkvæmdir við skólann ganga samkvæmt áætlun og er unnið hörðum höndum að því að ljúka heildarúttekt á húsnæðinu. Reglulega verða veittar upplýsingar um framganginn á mos.is og í tölvupósti til forráðamanna. Samhliða framkvæmdunum er unnið að viðbragðsáætlun ef ekki tekst að ljúka viðgerðum áður en kennsla hefst aftur í haust.

Þjónustubygging að Varmá
Í málefnasamningi Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar var ákveðið að taka til endurskoðunar áætlanir um þjónustubyggingu við Varmá.
Í ljósi þess að ekki bárust nein tilboð í byggingu hússins hefur verið tekin ákvörðun um það í samráði við Aftureldingu að fara strax í þessa endurskoðun.

Lenging opnunartíma sundlauga
Í samkomulagi meirihlutans er kveðið á um að sundlaugar bæjarins verði opnar lengur. Fyrsta skrefið í þeirri þjónustuaukningu verður tekið í sumar þegar tíminn verður lengdur um hálfa klukkustund á virkum dögum.

Fasteignagjöld
Ástandið á fasteignamarkaði hefur valdið mjög mikilli hækkun fasteignamats. Í meirihlutasamkomulagi B, S og C lista er kveðið á um að álagningarprósentur fasteignagjalda verði lækkaðar til að koma til móts við hækkun fasteignamats. Nánari útfærsla mun koma fram í fyrstu fjárhagsáætlun nýs meirihluta.

„Við erum byrjuð að vinna samkvæmt málefnasamningnum og erum að koma málefnum í farveg og nánari útfærslu,“ segir Halla Karen Kristjánsdóttir, formaður bæjarráðs.
„Við viljum bæta upplýsingaflæðið frá bæjarstjórn til íbúa eins og við segjum í samningnum. Okkur finnst mjög mikilvægt að eiga gott samráð og samvinnu við bæjarbúa og viljum tryggja það að raddir sem flestra heyrist þannig að þjónustan sé framúrskarandi.“

Framsókn, Samfylking og Viðreisn