Athugasemdir við deiliskipulag í Bjarkarholti

Fyrir hönd eigenda allra íbúða í Bjarkarholti 20 í Mosfellsbæ viljum við koma á framfæri athugasemdum við auglýsta breytingu á deiliskipulagi nefnt Bjarkarholt 22 til 30 sem er breyting við gildandi deiliskipulag Bjarkarholts 1,2 og 3.
Okkur var ljóst samkvæmt núgildandi deiliskipulagi að á aðliggjandi lóð Bjarkarholti 1 væri gert ráð fyrir almenningsgarði og litlu fjölbýlishúsi með aðkomu að vestanverðu.
Breytt deiliskipulag gerir hinsvegar ráð fyrir að byggð verði 2 hús á lóðinni þ.e. Bjarkarholt 22 og 24.
Bjarkarholt 22 er skilgreint sem skáli og virðist hvorki hafa skilgreinda lóð né bílastæði. Þó er ljóst að öll starfsemi kallar á bílastæði og í þessu tilfelli verða þá stæði á aðliggjandi lóðum notuð sem er óásættanlegt.
Gert er ráð fyrir að Bjarkarholt 24 verði „stórhýsi“ þ.e. 7.700 m² fjölbýlishús með aðkomu að austanverðu og er það margföldun á stærð miðað við núgildandi deiliskipulag. Einnig er gert ráð fyrir aðkomu og fjölda bílastæða á lóðamörkum við hús nr. 20.
Við gerum athugasemdir við stærð hússins sem og hæð þess og nálægð við hús okkar nr. 20. Þetta hefur veruleg áhrif á okkur bæði hvað skuggavarp varðar sem og útsýni til vesturs. Einnig teljum við að tilfærsla aðkomu að húsi nr. 24 verði til verulegra óþæginda fyrir okkur enda aðkoma að tugum íbúða og væri mikil truflun af aðkomu og bílastæðum við lóðamörk. Einnig kallar tilfærslan á að fella þurfi tré á lóðarmörkum sem er fráleitt að gera.
Tilfærsla aðkomunnar hefur einnig þau áhrif að eðlileg tenging milli miðbæjargarðs, friðlandsins og gangstígakerfis bæjarins verður rofin. Þessi svæði þurfa að tengjast saman með eðlilegum hætti eins og gert er ráð fyrir í núgildandi skipulagi.
Breytt skipulag gerir ráð fyrir gönguleið um undirgöng sem liggja í gegnum hús nr. 26 og að gengið verði um bæjarhelluna á húsi nr. 24.
Varðandi skipulagið í heild viljum við gera eftirfarandi athugasemdir:
Á lóðunum 1 til 5 á samkvæmt skipulagsdrögum að rísa 225 metra langt fjölbýlishús á 4 til 5 hæðum með fjórum útbyggingum. þetta finnst okkur afar óaðlaðandi „múr“ og úr öllu samhengi við núverandi umhverfi og alls ekki það sem við áttum von á að sjá þegar við festum okkur íbúðir hér.
Byggingarmagn á lóðum 1 til 3 hefur verið aukið um nær 40% frá gildandi skipulagi og íbúðum fjölgað úr 44 í 150 og teljum við þetta óhóflegt og alls ekki standast reglur um meðal­hóf.
Okkur virðist að fjárhagslegir hagsmunir lóðarhafa leigulóða í eigu bæjarfélagsins séu verulega veigameiri en hagsmunir okkar íbúanna hér í götunni, það finnst okkur vera öfugmæli.

Við erum öll ánægðir íbúar hér í götunni sem og í bæjarfélaginu en verði þetta skipulag samþykkt mun það breytast.
Við förum því fram á að þessi skipulagstillaga verði dregin til baka og endurunnin í samráði við íbúa nærliggjandi húsa en ekki bara lóðarhafa.
Við teljum að meðalhófs hafi ekki verið gætt við gerð þessarar skipulagstillögu.

Magnús Jónsson
Bjarkarholti 20