Hvernig líður börnunum okkar?
Undanfarin ár hefur gengið á ýmsu í lífi okkar allra. Margir upplifðu stóran skell þegar heimsfaraldur Covid 19 skall á af miklum þunga.
Fólk er í eðli sínu missterkt til að takast á við erfiðleika í lífinu en ég þori að fullyrða að Covid hefur haft áhrif okkur öll, ekki síst börnin okkar. Það hlýtur að vera erfitt að vera barn á þessum tímum og taka þátt í umræðum um hluti sem börn eiga ekki að þurfa að taka þátt í og hafa áhyggjur af hlutum sem börn eiga heldur ekki að þurfa að hafa áhyggjur af. Mörg þeirra hafa haft áhyggjur af sínu nánasta fólki, verið hrædd um að smita afa sína og ömmur eða aðra nátengda.
Mikil umræða hefur verið um bólusetningar barna og maður heyrir þau tala um kosti og galla bólusetninga eins og þau heyra fullorðna fólkið gera. Börn hafa ítrekað verið send í sóttkví, smitgát, sýnatökur, þau smitast, þau orðið veik ásamt því að þurfa að þola annað álag þessum faraldri samfara.
Við verðum nú sem aldrei fyrr að leggja við hlustir og heyra hvað börnin hafa að segja. Hvernig líður börnunum okkar?
Samhliða því að hlusta á raddir barna gefst tækifæri til að efla umræður um hag barna og tryggja að sú umræða byggist í grunninn á öryggi barna, velferð þeirra og menntun. Mikilvægt er að skólakerfið taki vel í óskir barna en samhliða tryggi að gæði náms séu ávallt í fyrirrúmi, að öll umgjörð skóla taki vel á móti öllum börnum. Þannig getum við bæði átt gott og gefandi samtal um skóla framtíðar.
Hvers vegna eru börn hér á landi látin bíða í marga mánuði eftir greiningu á fjölþættum vanda sínum? Hvers vegna er börnum og aðstandenum þeirra ekki tryggður greiður aðgangur að þeirri þjónustu sem þeim ber að fá?
Ótal skýrslur hafa verið unnar um mikilvægi málaflokks barna með fjölþættan vanda en lítið hefur áorkast. Við mjökumst í rétta átt en enn er langt í land og börn á mikilvægum ferli í þroska sínum geta ekki beðið.
Nýleg skýrsla um stöðu barna með fjölþættan vanda, unnin af stjórnendum í barnavernd á höfuðborgarsvæðinu, fjallar m.a. um hve óskaplega lengi málaflokkurinn hefur verið vanræktur. Margt hefur áunnist en einhvern veginn virðast stjórnvöld vera bæði of sein, á eftir og oftar en ekki illa undirbúin undir að taka við börnum með fjölþættan vanda. Getið er í skýrslunni um fundi með þáverandi velferðarráðherra 2012 en nú eru liðin 10 ár.
Árið 2020 er málið enn í brennidepli með tilliti til þarfa og þjónustu við þessi börn. Enn liggur þó ekki ljóst fyrir hvar kostnaður vegna þjónustu við börn með fjölþættan vanda skuli liggja og ekki eru enn fyrir hendi þau fjölbreyttu úrræði sem ljóst er að þurfa að vera til staðar. Skýrslan er góð en er þetta nóg?
Bætum hag allra barna óháð stétt og stöðu.
Lára Þorgeirsdóttir, kennari við Varmárskóla.
Skipar 7. sæti á M-lista Miðflokksins fyrir komandi sveitastjórnarkosningar