„Þakklátur fyrir hvern einasta sjúkdómsfría dag“
Jólaljós, árlegir styrktar- og jólatónleikar Kirkjukórs Lágafellssóknar verða haldnir þann sunnudaginn 15. nóvember og verður dagskráin létt, hátíðleg og fjölbreytt.
Diddú, María Ólafsdóttir, Hugi Jónsson, Bjarni Ara, Páll Rósinkranz, Greta Salóme, Hafdís Huld, Matthías Stefánsson, Jónas Þórir og að sjálfsögðu Kirkjukórinn munu koma fram ásamt mjög spennandi leynigesti.
Að þessu sinni eru tónleikarnir haldnir til styrktar Kára Erni Hinrikssyni sem er 27 ára Mosfellingur sem hefur barist við illvígt krabbamein í yfir áratug.
Gott að finna fyrir samkennd
„Það er erfitt að koma því í orð hvað ég er þakklátur. Ég hef fjórum sinnum greinst með krabbamein, síðast fyrir rúmum tveimur árum. Undanfarnir sex mánuðir hafa verið góðir hjá mér, sjúkdómsfríir, en rannsóknir sem ég fór í úti í Kaupmannahöfn í apríl komu vel út. Ég fer aftur í rannsóknir í nóvember og vona að þær komi vel út,“ segir Kári Örn.
„Tónleikarnir eiga eftir að verða geggjaðir enda ótrúlega mikið af hæfileikafólki sem ætlar að koma fram og á meðan ég kvíði mikið fyrir rannsóknunum þá hlakka ég til þessara tónleika. Styrkurinn á eftir að koma sér vel í baráttunni sem snýst um að lifa af, mögulega eignast barn ef örlögin leyfa og lenda í ævintýrum með ástinni minni henni Júlíönu. Að finna fyrir svona samkennd frá góðhjörtuðu fólki út í bæ er alveg sérstök tilfinning.“
Þakklátur fyrir hvern dag
Kirkjukór Lágafellssóknar hefur síðan 1999 haldið styrktartónleika í aðdraganda jólanna til styrktar ýmsum einstaklingum og málefnum undir nafninu Jólaljós en í ár fara þeir fram í Guðríðarkirkju og hefjast klukkan 16:00. Aðgangseyrir er 3.000 krónur og miðar eru seldir við innganginn.
„Ég hvet alla til að mæta og njóta fjölbreyttrar tónlistar og upplifa frábæra jólastemningu. Ég er þakklátur fyrir hvern einasta sjúkdómsfría dag sem ég fæ og óendanlega þakklátur öllum þeim sem koma að þessum styrktartónleikum,“ segir Kári Örn að lokum.