Setjum markið hátt!

Ólöf Kristín Sívertsen

Ólöf Kristín Sívertsen

Eflaust kannast eflaust einhver ykkar við hann Siglufjarðar-Geira sem Jónas Árnason orti um hér um árið. Hann lenti í ýmsu eins og gerist en lét ekkert buga sig og viðhafði alltaf þau orð að lífið væri lotterí og hann tæki þátt í því.
Þessi orð minna okkur á að við erum okkar gæfu smiðir og viðhorf okkar til hlutanna skiptir máli og þó við berum vissulega ábyrgð á sjálfum okkur þá hefur umhverfi okkar og það samfélag sem við lifum í mikil áhrif á þær ákvarðanir sem við tökum í lífinu. Það er nákvæmlega af þessari ástæðu sem Mosfellsbær tók þá ákvörðun árið 2012 að verða Heilsueflandi samfélag.

Þúsund þakkir
Við viljum endilega nota tækifærið til að þakka öllum þeim fjölmörgu sem lögðu sitt af mörkum til okkar glæsilegu Hreyfiviku (e. Move Week) í september sl. Í ár voru fjölmargir skemmtilegir viðburðir í boði og þátttakan alveg til fyrirmyndar. Einnig viljum við þakka sérstaklega Ferðafélagi Íslands, Fjallakofanum, Eldingu, Reykjabúinu, Kettlebells Iceland og Mosfellsbæ fyrir glæsilega vinninga í Fellaverkefninu okkar sem er svo sannarlega komið til að vera.

„Setjum markið hátt” – viðburður í kvöld
Landsmenn allir hafa fylgst með afrekum Vilborgar Örnu Gissurardóttur pólfara. Hún hefur gengið yfir Grænlandsjökul, farið í siglingarleiðangra og gengið einsömul á Suðurpólinn. Kjörorð Vilborgar er: „Ef þú þráir eitthvað nógu heitt þá finnurðu leiðina, annars finnurðu bara afsökunina“. Í kvöld gefst öllum kostur á því að mæta í Framhaldsskólann í Mosfellsbæ og hlusta á Vilborgu segja okkur frá því hvað drífi hana áfram í að eltast við drauma sína og hvað þurfi til þess að ná árangri.

Aðalfundur heilsuklasans Heilsuvinjar verður einnig á dagskrá þar sem fram fara hefðbundin aðalfundarstörf ásamt umræðum um forystuverkefni klasans í tengslum við Heilsueflandi samfélag. Viðburðurinn hefst kl. 20:00, aðgangur er ókeypis og allir hjartanlega velkomnir!

Hvert stefnum við?
Verkefnið Heilsueflandi samfélag er stórt og viðamikið og margt sem þarf að gera. Það er ekki átaksverkefni heldur er horft á allar hliðar heilsu, þ.e. líkamlega, andlega og félagslega heilsu og vellíðan, með það fyrir augum að stuðla að jákvæðu viðhorfi og nýjum venjum til framtíðar. Til þess að slíkt sé hægt þurfa allir að leggjast á eitt, bæði við íbúarnir og bæjarfélagið sjálft. Ef við rýnum til gagns og vinnum þétt saman með hagsmuni og bætt lífsgæði heildarinnar að leiðarljósi þá eru okkur allir vegir færir.

Við hvetjum ykkur sem fyrr til að taka þátt í þessu frábæra verkefni og setja markið hátt!

Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsufræðingur og verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ.

Greinin birtist í Mosfellingi 12. nóvember 2015