Fyrirtækið vaxið um 40% á ári síðastliðin fjögur ár
Hjónin Alda Kristinsdóttir og Sigurður Hansson reka gólf- og múrefnaverslunina Fagefni í Desjamýri 8.
„Ég er búin að vera sjálfstætt starfandi í gólfefnabransanum í 30 ár og hef sérhæft mig í því að flota gólf,“ segir Siggi eins og hann er alltaf kallaður.
„Í kringum árið 2000 byrjaði ég að flytja inn múrefni og fleira frá Bretlandi ásamt föður mínum Hans Þór Jenssyni dúklagningameistara, en við unnum saman í 25 ár. Í raun var þetta bara svona hliðarbúgrein til að byrja með en það var svo í kringum 2008 að við stofnum fyrirtæki sem hélt utan um innflutninginn og svo rek ég verktakafyrirtækið Siggi Dúkari“, segir Siggi.
Leggja áherslu á að bjóða aðeins upp á hágæða vörur
„Í kringum 2014 fórum við að leggja drög að versluninni sem slíkri, ég byrjaði á að koma inn í fyrirtækið til að sjá um bókhaldið,“ segir Alda en í dag sér hún um almenna markaðssetningu og reksturinn á búðinni.
Við fórum markvisst í að breikka vöruúrval hjá okkur og meðal annars byrjuðum að flytja inn vínilparket og fleira. Við fluttum svo í Desjamýrina 2018 þar sem við rekum flotta verslun með miklu úrvali af hágæða múrefnum, þéttiefnum og vínilgólfefnum frá heimsþekktum framleiðendum,“ segir Alda.
Góð og persónuleg þjónusta
„Síðastliðin fjögur ár hefur fyrirtækið vaxið um u.þ.b. 40% á ári. Við þjónustum bæði stofnanir, verktaka og einstaklinga. Okkar markmið er að bjóða upp á gæðavöru á hagstæðu verði og veita faglega og persónulega þjónustu og ráðgjöf um allt sem snýr að okkar sviðum í mannvirkjalausnum.
Kúnnahópurinn okkar er fjölbreyttur og við erum þekkt fyrir að þjónusta landsbyggðina sérstaklega vel. Við hvetjum alla Mosfellinga að kíkja á okkur og styrkja verslun í heimabyggð í leiðinni,“ segja Siggi og Alda að lokum en verslunin er opin alla daga frá kl. 8 – 17, nema föstudaga til kl. 16.
Vefverslunin www.fagefni er opin allan sólarhringinn.