Umhverfismál í forgangi
Árið 2019 varð vitundarvakning í umhverfismálum á meðal almennings hér sem annars staðar.
Loftslagsverkföll ungmenna vöktu alþjóð til hugsunar um mikilvægi þess að haga lífi okkar á þann veg að það hafi sem minnst raskandi áhrif á umhverfið. Þegar rætt er um þessi mál er augljóst að umbætur þurfa að eiga sér stað í stóra samhenginu og getum við sem erum í umhverfisnefnd Mosfellsbæjar haft þar áhrif. En margt smátt gerir eitt stórt.
Í umhverfisnefnd höfum við sett fram nýja umhverfisstefnu sem við erum stolt af og verður vonandi hvatning fyrir bæinn að fylgja eftir og gera betur í umhverfismálum. Því lengi má gott bæta.
Mosfellsbær ætlar að halda áfram að vera til fyrirmyndar og sem hvatning fyrir önnur sveitarfélög til að fylgja okkur eftir í umhverfismálum. Því eins og vitað er þá er eftirsóknarvert að búa í bæ sem er til fyrirmyndar og býður upp á fallegt og vel snyrt umhverfi. Það er eftirsóknarvert að ala upp börn sem geta leikið sér úti í náttúrunni þar sem upplifunin er sveit í bæ eins og við bæjarbúar höfum hér í nærumhverfi okkar.
Það eru okkur Mosfellingum sem búum hér forréttindi að geta labbað út frá heimilum okkar í náttúruperlur hér allt í kring. Nefni ég sem dæmi Blikastaðahringinn, þar er hægt að sjá fuglalífið og í Leiruvogi selina. Ganga Álafosskvosina upp með fossinum, meðfram ánni í gegnum skóginn hjá Reykjalundi þar sem maður er eins og í útlöndum að mér finnst. Göngur upp á Helgafell, Úlfarsfellið og fleiri staði án þess að setjast upp í bíl og keyra. Græn svæði og náttúruperlur eru eitt af því sem gefur lífinu lit til að njóta lífsins.
Ég ætla að leggja mitt af mörkum til að bæta umhverfið mitt og væri gaman að fá aðra bæjarbúa í lið með mér. Endurgjöf frá bæjarbúum þar sem þeir benda á tækifæri til umbóta er mikilvæg.
Ég myndi vilja sjá bæjarskrifstofuna og aðrar stofnanir í bænum hætta með pappa- og plastglös og bjóða frekar upp á fjölnota bolla ásamt því að hvetja fólk til að koma með sína eigin bolla á fundi eða viðburði.
Starfsmenn í áhaldahúsinu hafa breytt ýmsu til hins betra. En skipt hefur verið út bensíndrifnum verkfærum í batteríisverkfæri. Fjárfest hefur verið í nýjum rafmagnsbíl sem notaður verður í garðyrkju og til tæmingar rusladalla. Þau hafa einnig unnið markvisst að því að minnka plastnotkun.
Þetta eru allt skref til batnaðar og vonum við að á árinu 2022 verði enn fleiri skref tekin til sjálfbærrar framtíðar í Mosfellsbæ.
Kristín Ýr Pálmarsdóttir