Mosfellsbær og friðun Blikastaðakróar/Leiruvogs
Við Íslendingar stöndum í þeirri bjargföstu trú að náttúra landsins sé fögur, hrein og tær. Er það svo alls staðar?
Ég stend í þeirri trú að Mosfellsbær sé mjög fallegur bær, náttúran og fjöllin allt um kring og fegurð vatna, lækja, áa og hafs sem umlykur okkur.
Nýlega tók ég sæti í Heilbrigðisnefnd Kjósarsvæðis (HK) fyrir Mosfellsbæ. Þegar maður tekur við ábyrgð sem þessari vill maður leggjast yfir allt og lesa sér til. Það gerði ég og sá mér til mikillar undrunar niðurstöðu mengunarmælinga í viðamikilli og stórmerkilegri ársskýrslu heilbrigðiseftirlitsins fyrir árið 2019.
Á bls. 24 (mynd 28) blasti við mér súlurit sem sýndi fjölda saurkólígerla á hverja 100 millilítra vatns (saurkólíg/100ml) á nokkrum stöðum í Mosfellsbæ. Þar bar hæst súla við fornan stað hér í Mosfellsbæ sem ber heitið Hestaþinghóll. Hvar er það? Ég varð hugsi og fann út að þessi staður hefur slegið öll met í Mosfellsbæ hvað þessa tegund mengunar varðar.
Ég las mér til og fann frétt á vef RÚV frá því 15. júlí 2017 þar sem fjallað var um mikla saurkóligerlamengun á baðstaðnum í Nauthólsvík. Þá mældust þar 99 saurkólíg/100ml. Reyndist þetta meira en venja er á þessum þekkta baðstað höfuðborgarbúa. Sama ár, þ.e. 20. júlí 2017, birtist frétt á mbl.is um saurkólígerlamengun í Varmá, ánni okkar sem búið er að friða. Sú frétt gekk út á m.a. það að 14. júlí, þ.e. skömmu áður en fréttin birtist, var mikill fiskidauði í Varmá ásamt því að benda á mikla saurkólígerlamegnun. Þá mældust 760 til 1000 saurkólíg/100ml.
Þá var sagt í sömu frétt að reglugerð um fráveitur og skólp fyrir útivistarsvæði á fjölda saurkólígerla í að minnsta kosti 90% tilfella eigi að vera undir 100 saurkólíg/100ml miðað við lágmark 10 sýni (reglugerð nr. 450/2009). Hestaþinghóll er þar sem Varmá rennur út í Blikastaðakró/Leiruvoginn okkar hér í Mosfellsbæ og út á haf. Mosfellsbær, ásamt Reykjavíkurborg og með aðstoð Umhverfisstofnunar, auglýstu áform um friðun í sumar á Blikastaðakró/Leiruvogi (nær frá Geldinganesi í Reykjavík til botns Leiruvogs í Mosfellbæ).
Frestur til að skila athugasemdum var gefinn til 10. ágúst 2021 og er það lágmarksfrestur eða 4 vikur. En hve mikil er mengunin við Hestaþinghól? Hún hefur verið að slá upp í um eða yfir 2400 saurkólíg/100ml (mynd 27 í skýrslu HK) og að meðaltali hafa mælingar síðustu ár legið frá 400 til allt að 700 saurkólíg/100ml.
Þarna við Hestaþinghól fer barnafólk í göngutúra allt árið um kring, fólk með gæludýr sín og sjálft til að njóta fegurðarinnar. Þó fólk baði sig hugsanlega ekki þarna gætu gæludýr gert það. Aðskotahlutir sem berast í fjöruna gætu því verið mengaðir. En er ekki hér eitthvað í meiriháttar ólagi ef þetta er orðið að viðvarandi ástandi?
Mengun hér við ströndina slær út allar mælingar á höfuðborgarsvæðinu og í þokkabót ætlar Mosfellsbær að kalla eftir friðun á hafsvæði, lífríki þess og hafsbotns sem bærinn sjálfur stendur að því að menga sem mest. Samkvæmt gögnum Umhverfisstofnunar var svæðið þarna skráð á náttúruminjaskrá 1978, Varmárósar friðlýstir 1980 ásamt endurskoðun til aukinnar friðunar árið 2012 og nú í ár 2021. Svo má minnast á fitjasefið blessaða sem þarna vex við Hestaþinghól sem er friðuð háplöntutegund á válista.
Ég veit að efni þessarar greinar minnar er ekki beint kræsilegt og mæli ég því eindregið með lestri hennar áður en kristileg hátíð okkar nær hámarki með dýrindis máltíð, hlátri, gleði og söng.
Gleðilega hátíð og farsælt komandi ár.
Sara Hafbergsdóttir
Fulltrúi Miðflokksins í Heilbrigðisnefnd Kjósarsvæðis