Héraðsskjalasafnið fagnar 20 ára afmæli

Birna Sigurðardóttir héraðsskjalavörður og Sólveig Magnúsdóttir fyrsti héraðsskjalavörður Mosfellsbæjar við hluta af sýningu sem sett var upp í Kjarna í tilefni afmælis safnsins. Mynd/Magnús Guðmundsson

Blásið var til afmælisfagnaðar Héraðsskjalasafns Mosfellsbæjar í Kjarna hinn 22. október. Þess var minnst að Héraðsskjalasafn Mosfellsbæjar var stofnað hinn 24. október 2001 þegar Ólafur Ásgeirsson þjóðskjalavörður kom og veitti heimild til stofnunar þess.
Áður hafði Sögufélag Kjalarnesþings hvatt bæjarstjórn Mosfellsbæjar til að koma á legg héraðsskjalasafni. Af þessu tilefni voru fluttar ræður og saga safnsins rakin. Að loknu erindi Birnu Sigurðardóttur héraðsskjalavarðar og ávarpi Sólveigar Magnúsdóttur fyrsta héraðsskjalavarðarins sagði Bjarki Bjarnason forseti bæjarstjórnar frá því hvernig safnið hafi komið að miklum notum þegar ákveðið var að skrifa sögu Mosfellsbæjar, en hún kom út árið 2005.
Auk þess sem safnið varðveitir eldri og yngri skjöl bæjarfélagsins gegnir það mikilvægu hlutverki við söfnun og geymslu skjala frá félögum, fyrirtækjum og einstaklingum. Slíkar heimildir komu einnig að miklu gagni þegar aldarsaga Aftureldingar var skráð árið 2009.
Upplýsingaskilti sem sjá má víða í bæjarfélaginu eru prýdd ljósmyndum sem héraðsskjalasafnið átti þátt í að safna. Hrafn Sveinbjarnarson héraðsskjalavörður í Kópavogi flutti heillaóskir og tíundaði lýðræðislegt hlutverk safnsins. Hrefna Róbertsdóttir þjóðskjalavörður færði safninu bókargjöf. Kristbjörn Egilsson líffræðingur færði héraðsskjalasafninu frumheimildir um býlið Meltún sem hann notaði við samningu bókar um býlið og ábúendur þess, en hann var í sveit í Meltúni sem unglingur.
Þjóðfræðingarnir Ólafur Ingibergsson og Valgerður Óskarsdóttir unnu með Birnu Sigurðardóttur héraðsskjalaverði að uppsetningu á sýningu á torginu í Kjarna og í anddyri turnsins í Kjarna. Þar má sjá gamlar ljósmyndir og upplýsingar um mannvirki sem sett hafa svip á Mosfellssveitina síðustu áratugi. Héraðsskjalasafnið er til húsa í Kjarna.