Hlaupa í minningu Þorsteins Atla

Ingólfur, lengst til vinstri, ásamt glæsilegum hópi sem ætlar að hlaupa á laugardaginn. 

Fótboltastelpurnar í 3. flokki Aftureldingar ætluðu að hlaupa 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu til styrktar Einstökum börnum.
Málefnið er þeim kært, þær hlaupa í minningu Þorsteins Atla Gústafssonar sem lést í júlí síðastliðnum en eldri bróðir hans, Ingólfur Orri, er þjálfari flokksins.

„Við ætlum að halda okkar striki og hlaupa hér í Mosó laugardaginn 18. september. Þetta er dásamlegur hópur að þjálfa. Þær eru fyrirmyndir innan sem utan vallar og við þjálfararnir erum gríðarlega stoltir af þeim.
Þetta hlaup er algerlega skipulagt og ákveðið af þeim. Þær eru að leggja mikið á sig að æfa svo þær geti hlaupið þetta,“ segir Ingólfur Orri. „Stelpurnar ætla að hlaupa einn hring eða 10 km en ég ætla að hlaupa fjóra hringi eða heilt maraþon sem eru 42 km. Við hvetjum alla til að koma og hlaupa með okkur þá vegalengd sem passar hverjum og einum.“

Hægt er að heita á hópinn „Minningarhlaup Þorsteins Atla“ á www.hlaupastyrkur.is.