Kaffi Kjós lokar eftir 23 ára rekstur

Kaffi Kjós, þjónustumiðstöð sem staðsett er í suðurhlíðum Meðalfells, verður nú lokað. Hjónin Hermann Ingólfsson og Birna Einarsdóttir á Hjalla hafa staðið vaktina í 23 ár. Nú hefur verið skellt í lás og er staðurinn til sölu. Árið 1998 fluttu þau hjónin lítið hús upp í Kjós og skírðu það Kaffi Kjós. Fljótlega var byrjað að selja kaffibolla og súkku­laðistykki og hefur starfsemin heldur betur eflst með árunum. Veitingasala og verslun hefur verið starfrækt á staðnum og áhersla lögð á heimilislegt umhverfi.

Þá hafa farið þar fram fjöldi viðburða sem bæði Kjósverjar, sumarbústaðaeigendur og aðrir gestir hafa notið í gegnum árin. Þá er tjaldsvæði á svæðinu auk hlöðu sem innréttuð hefur verið fyrir mannfögnuði í sveitinni. Kaffi Kjós er nú til sölu en ljóst er að mikill söknuður verður af þjónustulund þeirra hjóna Hermanns og Birnu eftir öll þessi ár.