Mosfellsbær, fyrsta kolefnishlutlausa sveitarfélagið?

Sigurður Loftur Thorlacius

Loftslagsvá er ein mesta ógn sem mannkynið hefur nokkru sinni staðið frammi fyrir.
Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru ótvíræðar og valda meðal annars aukinni tíðni hitabylgna, aftakaúrkomu, flóða og gróðurelda. Þessar breytingar eru ekki lengur fjarri okkur heldur sjáum við sligandi hitabylgjur í nágrannalöndum okkar, gróðurelda geisa og hamfaraflóð æða yfir þéttbýli. Hitamet falla svo um munar á hverju ári. Loftslagsvá vofir ekki einungis yfir kynslóðum framtíðar heldur ógnar hún okkur hér í dag. Vinstri Græn vilja róttækar aðgerðir og réttlát umskipti í loftslagsmálum og viðbrögð við loftslagsvánni sem byggja á áætlunum og fléttast inn í alla pólitíska stefnumótun, líka í sveitarfélögum.
Mosfellsbær er ekki undanskilinn áhrifum loftslagsbreytinga því þær valda til dæmis aukinni tíðni á flóðum eins og þau sem urðu í Mosfellsbæ í mars 2015. Með auknum líkum á aftakaúrkomu eykst líka hættan á skriðuföllum og Mosfellsbær er ríkur af fellum. Við þurfum að sýna fyrirhyggju, aðlagast loftslagsvánni og taka tillit til hennar í öllu skipulagi. Samhliða þurfum við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu kolefnis hratt og örugglega til að koma í veg fyrir frekari loftslagsbreytingar.

Mosfellsbær hefur löngum verið í fararbroddi sveitarfélaga í umhverfismálum og á fáum stöðum hefur samþætting náttúru og byggðar tekist jafn vel. Við getum verið hreykin af fjölskylduvæna samfélaginu okkar, virku menningarlífi og gróskumikilli náttúru.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur var sett fram markmið um kolefnishlutleysi Íslands fyrir 2040 og í júní á þessu ári var það markmið lögfest á Alþingi. Í umhverfisstefnu Mosfellsbæjar er líka stefnt á kolefnishlutleysi og ýmsar leiðir lagðar fram til að draga úr losun og auka bindingu. Styðja á við hjólreiðar, almenningssamgöngur og orkuskipti til að draga úr losun frá samgöngum. Auka á kolefnisbindingu með aukinni skógrækt og landgræðslu ásamt því að endurheimta votlendi og birkiskóga. Auka á aðgengi að vistvænum vörum, minnka matarsóun og auðvelda flokkun úrgangs.
Í umhverfismálum höfum við Mosfellingar forskot á mörg önnur sveitarfélög og ættum að nýta okkur þá forystu til að verða fyrsta íslenska kolefnishlutlausa sveitarfélagið. Einhver sveitarfélög hafa sett stefnuna á kolefnishlutleysi 2030 og þar ætti Mosfellsbær ekki að vera neinn eftirbátur. Við Vinstri græn viljum stíga stór skref, það vill Mosfellsbær líka, sameinumst öll í markmiðinu um kolefnishlutlaust bæjarfélag.

Sigurður Loftur Thorlacius, umhverfisverkfræðingur og fulltrúi ungs fólks í Loftslagsráði.
Höfundur er í 11. sæti Vinstri
grænna í Suðvesturkjördæmi.