Seinni áfangi Helgafellsskóla vígður 31. ágúst
Þann 31. ágúst verður seinni áfangi Helgafellsskóla vígður.
Í skólanum er leikskóladeild, grunnskóladeild og frístundadeild. Félagsmiðstöð fyrir miðstig og unglingastig verða einnig í skólanum og Listaskóli Mosfellsbæjar sinnir tónlistarkennslu á yngstu stigunum í skólanum í sérhönnuðu húsnæði fyrir tónlist. Í þessum áfanga verður rými 5.-10. bekkja, sérgreinarými, stoðrými og salur.
Skólinn ætlaður fyrir um 700 börn
Fjöldi barna í skólanum hefur aukist jafnt og þétt frá því að kennsla hófst í skólanum árið 2018. Nú eru 117 börn í leikskóladeild og 300 í grunnskóladeild í átta árgöngum en á næstu tveimur árum munu svo tveir síðustu árgangar grunnskólans bætast við. Skólinn er áætlaður fyrir um 700 börn á leik- og grunnskólastigi.
Yrki arkitektar hönnuðu skólann sem er byggður í tveimur áföngum. Ístak hafði yfirumsjón með fyrri hluta byggingarinnar en Flotgólf annaðist þann seinni. Undirbúningur, hönnun og framkvæmdin hefur að mati Mosfellsbæjar tekist einkar vel og verið hönnuðum, verktökum og þeim starfsmönnum Mosfellsbæjar sem sinntu stjórnun og eftirliti til staks sóma.
Skólastarf í Mosfellsbæ hefur um margt verið í fararbroddi í skólaþróun hérlendis og Helgafellsskóli er þar engin undantekning. Í vetur hlaut skólinn styrk úr Sprotasjóði til að þróa kennslu á unglingastigi. Efsta hæð skólans er einstaklega falleg og hvetjandi umgjörð um áherslur skólans og styður vel við samþættingu námsgreina.
Verði hjarta Helgafellshverfisins
„Helgafellsskóli er dæmi um mjög vel heppnaða opinbera framkvæmd. Um er að ræða fallega, nútímalega skólabyggingu sem uppfyllir viðmið okkar um umgjörð skóla- og frístundastarfs barna. Áherslur í skólastarfinu eru meðal annars teymiskennsla og útikennsla.
Þá er skólinn jafnframt hannaður með það í huga að geta gegnt hlutverki menningarmiðstöðvar hverfisins og hefur að mínu mati alla burði til að verða sannkallað hjarta hverfisins innan skamms. Lykillinn að farsælu verkefni sem þessu er að undirbúningur, hönnun og framkvæmd öll hefur verið til fyrirmyndar og ráðgjöfum okkar, verktökum og þeim starfsmönnum Mosfellsbæjar sem að verkefninu hafa komið til staks sóma.
Það hefur verið mjög ánægjulegt, síðustu misserin, að sjá hvert rýmið á fætur öðru taka á sig mynd þar sem hugmyndir verða að veruleika. Í þessum nýjasta skóla okkar Mosfellinga er margt nýmæla eins og sérhönnuð árgangasvæði, sérstök rými til tónlistarkennslu, mögnuð hljóðvist sem styður einkar vel við samkennslu og gott vinnurými almennt séð,“ segir Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar.