Úr holu í höll

Helga Jónsdóttir er stolt af því að hafa tekið þátt í uppbyggingu Bókasafns Mosfellsbæjar í hátt í 40 ár.

Árið 1890 komu nítján Mosfellingar saman við hamarinn hjá Seljadalsá við Hafravatn. Þar stofnuðu þeir Lestrarfélag Lágafellssóknar. Í desember 1956 var Lestrarfélagið formlega lagt niður og í samræmi við ný lög var Héraðsbókasafn Kjósarsýslu stofnað.
Nafni safnsins var síðan breytt í Bókasafn Mosfellsbæjar 1997 og á 131 ári hefur safnið breyst úr litlu lestrarfélagi í öfluga menningarmiðstöð með fjölbreytta þjónustu, starfsemi og menningartengda viðburði af ýmsu tagi.
Helga Jónsdóttir hefur starfað lengi í Bókasafninu eða frá árinu 1983, og þar af 24 ár sem deildarstjóri, en lét af störfum í júlí sl. Hún segir samskipti við gesti í gegnum tíðina hafi verið einstaklega ánægjuleg og gefandi.

Helga fæddist á Sólvangi í Hafnarfirði 18. júní 1954. Foreldrar hennar eru þau Málfríður Bjarnadóttir húsfreyja og lyfjafræðingur og Jón Magnús Guðmundsson bóndi, oddviti og hreppstjóri, en hann lést árið 2009
Systkini Helgu eru þau Hilmar f. 1940, Sólveig Ólöf f. 1949, Guðmundur f. 1952, Bjarni Snæbjörn f. 1956, Eyjólfur f. 1960 og Jón Magnús f. 1962.

Ávallt mannmargt á Reykjum
„Ég er alin upp á Reykjum í Mosfellssveit. Í uppvexti mínum var ávallt mannmargt í heimili á Reykjum. Það voru foreldrarnir og amma Ingibjörg, við systkinin, sumardvalarfólk, innlent og erlent starfsfólk og oft unglingar sem dvöldu hjá okkur í lengri eða skemmri tíma. Það voru alltaf um 20 manns í mat og ég man til dæmis aldrei eftir því að á jólum værum bara við kjarnafjölskyldan.
Ég tók snemma þátt í starfi heima, sérstaklega eftir að fuglasláturhúsið var tekið í notkun 1962. Hitinn og gufan í sláturhúsinu áttu ekki við mig svo ég vann tvö sumur í kálgörðum Ásgeirs frænda míns og líkaði vel.“

Nesti snætt og lífsins notið
„Það voru krakkar í hverju húsi í Reykjahverfinu, margir þeirra frændfólk. Í minningunni vorum við mikið í útileikjum. Farið var upp í Reykjafjall í berjamó og labbitúra. Svo var tjaldað og buslað í Varmánni, nesti snætt og lífsins notið. Stundum var farið í útreiðartúra, það var ágætt, en hestamennskan náði ekki taki á mér.
Fundið var upp á ýmsu, eins og þegar við frænkurnar opnuðum sjoppu í Daddaskúr. Við seldum popp og Ópal í lausu ásamt fleiru, og fyrir krónu mátti setjast niður og skoða Andrés Önd. Viðskiptavinir gátu líka tekið út í reikning, allt var skilmerkilega skráð í gamla frumbók og í lok sumars var farið milli bæja að rukka inn“, segir Helga og brosir að minningunni.

Í sveit í Noregi
„Ég var í vorskóla í Brúarlandi 6 ára, og í 7 og 8 ára bekk hjá Klöru Klængsdóttur, þeirri ágætu konu. Ég fór síðan í 9 ára bekk í Varmárskóla og var þar út barnaskólann. Í nokkra áratugi höfum við bekkjarsysturnar haldið saumaklúbb og njótum þess að vera saman.
Eftir 12 ára bekk fór ég í Kvennaskólann og lauk þaðan landsprófi. Í landsprófi hófust kynni okkar Dunu vinkonu minnar og ég elti hana í Menntaskólann við Tjörnina, sem nú er MS. Lauk þaðan stúdentsprófi 1974. Félagslífið var með ágætum, ekki síst í skólakór MT.
Á unglingsárunum var ég í sveit í Noregi tvö sumur. Þessi tími er mér minnisstæður og var mér mjög mikilvægur.“

Fyrstu skrefin tekin að heiman
„Sumarið 1973 tókum við að okkur tvær, ég og Þóra vinkona mín, að veita forstöðu Farfuglaheimilinu í Reykjavík. Lítil íbúð fylgdi starfinu og þar með voru fyrstu skrefin tekin að heiman. Þetta var stutt frá skólanum og passaði afar vel fyrir okkur að öllu leyti.
Ég sagði skilið við farfuglana ári síðar, en Þóra er enn í bransanum.“

Hófu búskap í Svíþjóð
„Í byrjun árs 1975 var ég beðin um að taka að mér dönskukennslu allra bekkja í Gagnfræðaskólanum í Mosfellssveit meðan kennarinn var í fæðingarorlofi. Það er mér afar minnisstæð lífsreynsla og ég er þakklát fyrir hana. Þarna sannfærðist ég um að ég ætti ekkert erindi í kennarastarf.“
Helga kynntist Magnúsi Guðmundssyni, lífsförunaut sínum, í MT en þau voru saman í bekk. Magnús er sagnfræðingur og skjalfræðingur, starfar hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.
Leið þeirra lá til Svíþjóðar haustið 1975 þar sem þau hófu búskap og stunduðu nám í fjögur ár. Eftir heimkomu hélt skólaganga Helgu áfram og hún lauk cand.mag. prófi í íslenskri málfræði 1983. Helga og Magnús eiga tvo syni, Jón Bjarna f. 1981 og Árna f. 1985. Barnabörnin eru tvö.“

Skemmtilegt starf
Helga hefur tekið að sér ýmis störf í gegnum tíðina, liðtæk á búinu og í garðyrkjunni, banka, ferðaskrifstofu, auk starfsins á Farfuglaheimilinu. Hún hefur einnig unnið við rannsóknir á máltöku barna og við handrita- og prófarkalestur.
„Snemma árs 1983 bauðst mér starf í Héraðsbókasafni Kjósarsýslu. Þá bjuggum við í nágrenninu svo það hentaði vel. Jón Sævar Baldvinsson var þá tekinn við safninu og hafði komið því haganlega fyrir í rými undir stiga í Gagnfræðaskólanum. Við störfuðum fjögur þarna. Þetta var skemmtilegt starf fannst mér, og gat alveg hugsað mér að halda því áfram.
Eftir að ég hóf störf í safninu nam ég bókasafnsfræði við HÍ.“

Þungamiðja menningar
„Safnið var svo fljótlega flutt í Markholt 2 og árið 1995 á 2. hæð í Kjarna. Þá var Marta Hildur Richter tekin við forstöðu safnsins fyrir nokkru. Við áttum farsælt samstarf í rúm 30 ár.
Aftur varð bylting í húsakosti og búnaði. Tölvuvæðing hafin og ýmsar nýjungar í gangi. Starfsemin blómstraði og varð fljótlega þungamiðja menningar í bæjarfélaginu.
Frá því í Gagnfræðaskólanum voru haldnar rithöfundakynningar sem þróuðust í það sem við í dag köllum bókmenntahlaðborð. Starfsfólki fjölgaði og viðburðalistinn lengdist, ekki síst í barnastarfi. Enn urðu þáttaskil þegar við fluttum safnið á torgið í Kjarna og aðstaðan breyttist til muna, ekki síst vegna Listasalar Mosfellsbæjar.”

Lét sér annt um samstarfið
„Frá 1990 var ég þátttakandi í norrænu vinabæjasamstarfi Mosfellsbæjar, fyrst sem fulltrúi Norræna félagsins í Mosfellsbæ en síðar urðu vinabæjasamskiptin hluti af starfi mínu hjá Mosfellsbæ. Pabbi var mikill áhugamaður um þessi samskipti og það skilaði sér.
Páll Guðjónsson var bæjarstjóri þegar ég hóf störf og lét sér annt um vinabæjasamstarfið. Hann átti stóran þátt í því að blása í það nýju lífi, og Mosfellsbær hefur frá upphafi sinnar þátttöku árið 1977 verið virkur aðili í þessu samstarfi.“

Safnið í góðum höndum
„Ég er stolt af því að hafa tekið þátt í uppbyggingu Bókasafns Mosfellsbæjar, sem mér finnst vera glæsileg menningarstofnun, allt frá því við vorum undir stiga í Gagnfræðaskólanum og fram til dagsins í dag. Úr holu í höll.
Starfið í Bókasafninu hefur verið afar fjölbreytt í gegnum tíðina og samskipti við gesti mjög ánægjuleg og gefandi. Safnið er í góðum höndum og verkefni mín hafa fengið nýja umsjón. Ég held áhyggjulaus með fjölda nýrra áskorana út í eilífðarfríið,“ segir Helga að lokum og brosir.