Hlégarður – Hús okkar Mosfellinga
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar hefur samþykkt að ráðast í viðamiklar endurbætur innanhúss á félagsheimilinu Hlégarði.
Gert er ráð fyrir að verkið verði unnið á næstu fjórum árum, nú þegar hefur fyrsti áfanginn verið boðinn út og er hann fólginn í gagngerum breytingum og endurbótum á jarðhæð hússins. Í síðari áföngum verksins verður opnuð leið upp á efri hæð Hlégarðs svo hægt verði að nýta það rými betur. Áður hefur húsið verið endurbætt að utan, skipt um klæðningu og glugga og þakið endurgert.
Merkileg saga
Félagsheimilið Hlégarður á sér merka sögu, það var vígt 17. mars 1951 og fagnar því 70 ára vígsluafmæli í þessum mánuði. Arkitekt hússins var Gísli Halldórsson (1914-2012) sem teiknaði meðal annars Laugardalshöll og fleiri stórbyggingar í Reykjavík.
Þegar Hlégarður var reistur bjuggu einungis rúmlega 500 manns í Mosfellshreppi, byggingin var stórátak fyrir sveitarfélagið en Ungmennafélagið Afturelding og Kvenfélag Lágafellssóknar lögðu einnig hönd á plóginn og áttu reyndar eignarhlut í húsinu næstu áratugina. Salurinn rúmaði 230 manns og var haft á orði að félagsheimilið nýja væri það glæsilegasta í sveit á Íslandi. Öllum Mosfellingum var boðið til vígslunnar, þar flutti Halldór Laxness hátíðarræðu þar sem hann kvaðst
óska þess að hér mætti „ … blómgast siðmentað skemtana- og listalíf í ýmsum myndum og hér verði mörgum góðum ráðum ráðið um hvaðeina sem vera má til velgeingni mentunar og eindrægni innan héraðs í samræmi við félagslegar hugsjónir nútímans.“
Hlégarður varð strax kjölfestan í félagslífi Mosfellinga, húsið hefur tekið allmiklum breytingum í tímans rás, það hefur verið stækkað og innra rýmið tekið nokkrum stakkaskiptum. Á heilum mannsaldri hefur Hlégarður gegnt afar fjölþættu hlutverki, þar hafa til dæmis verið leiksýningar og leikfimikennsla, tónleikar og tombólur, alls konar fundir, basarar, bíósýningar og böll.
Nútímalegt hús á gömlum grunni
Markmið endurbótanna í Hlégarði er að tryggja aukið notagildi hússins og það verði ein af miðstöðvum menningarlífsins í Mosfellsbæ. Er þetta í samræmi við málefnasamning meirihlutaflokkanna í bæjarstjórn Mosfellsbæjar um að unnið verði „ … að stefnumótun fyrir Hlégarð og að eitt höfuðmarkmið þeirrar vinnu verði að nýta húsið betur í þágu bæjarbúa.“
Menningar- og nýsköpunarnefnd Mosfellsbæjar fer með málefni Hlégarðs í umboði bæjarstjórnar og samþykkti nefndin fyrir nokkrum árum að fá arkitektastofu til að gera tillögur að breytingum á innra rými hússins. Arkitektastofan Yrki tók það verkefni að sér og hugaði sérstaklega að heildaryfirbragði og sögu hússins og að byggingin héldi sem mest sínu upphaflega svipmóti. Um leið yrði kappkostað að húsið svaraði nútímakröfum og notagildi þess verði í senn mikið og fjölbreytt.
Það er von okkar og vissa að þær framkvæmdir sem nú eru að hefjast í Hlégarði muni efla allt félags- og menningarlíf í Mosfellsbæ í lengd og bráð.
Bjarki Bjarnason, forseti bæjarstjórnar.
Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri.