Gleðileg jól!
Einn
Árið 2020 er senn á enda en það hefur einkennst af óvissu og stakkaskiptum í hefðbundnu lífi okkar flestra. Faraldur geisar um lönd og álfur sem á sér engin fordæmi á síðari tímum, í sérhverri viku, nánast á hverjum degi, hefur ný sviðsmynd blasað við okkur.
Íslenskt samfélag hefur borið gæfu til að sýna samstöðu undir forystu heilbrigðisyfirvalda og stjórnvalda og það hefur sýnt sig að samtakamáttur þjóðarinnar er öflugt vopn í baráttunni við þennan skæða vágest.
Tveir
Líkt og aðrir hafa Mosfellingar þurft að stokka spilin upp á nýtt á þessum óvenjulegu tímum. Sveitarfélagið hefur lagt allt kapp á að verja grunnþjónustu við íbúa og það er leiðarstefið í fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar sem samþykkt var á fundi bæjarstjórnar 9. desember síðastliðinn. Viðspyrnan til varnar grunnstarfseminni hefur
tekist með ágætum og byggir á því að sveitarfélagið hefur verið vel rekið undanfarin ár.
Mosfellsbær hefur innan sinna raða öflugt starfsfólk sem leggst á eitt við að koma starfsemi sveitarfélagsins í gegnum þessar þrengingar með sem minnstum áhrifum á daglegt líf bæjarbúa. Má þar nefna að skólar bæjarins hafa gjörbylt starfsháttum sínum og starfsmenn þeirra sýnt það og sannað að þeir er lausnamiðaðir í þessum erfiðu aðstæðum.
… og þrír
Í dag stöndum við á tímamótum og bjartari tímar eru handan við hornið. Þrátt fyrir að nú hilli undir lok þessa heimsfaraldurs með notkun á bóluefni er baráttunni alls ekki lokið. Nú sem aldrei fyrr er mikilvægt að heimsbyggðin hafi það úthald sem til þarf á lokasprettinum. Með hækkandi sól munum við sigrast á þeim vágesti sem hefur herjað á okkur öll með einum eða öðrum hætti.
Hátíð ljóss og friðar er framundan. Við óskum öllum Mosfellingum gleðilegra jóla og þökkum góð samskipti á þessu óvenjulega ári sem rennur senn í aldanna skaut.
Bjarki Bjarnason, forseti bæjarstjórnar og bæjarfulltrúi V-lista.
Bryndís Brynjarsdóttir, varabæjarfulltrúi V-lista.