Stöndum saman

Ólöf Kristín Sívertsen

Nú nálgast jólin óðfluga og aðventan er rétt handan við hornið. Flest krossleggjum við fingur í þeirri von að við náum að halda sæmilega hefðbundin jól á þessum sérkennilegu og lærdómsríku tímum.
Í þessum aðstæðum sakna margir þess að geta ekki hitt fjölskyldu og vini, vinnufélaga, æfingafélaga, göngu-, hlaupa- og hjólafélaga og svo mætti lengi telja. Sem betur fer er hægt að tala við fólk í mynd í gegnum alls kyns tæki og forrit sem við eigum að sjálfsögðu að nýta okkur óspart.

Félagsleg tengsl mikilvæg
Rannsóknir hafa sýnt að það er okkur öllum mikilvægt að eiga í góðum félagslegum samskiptum og að slík tengsl auka hamingju okkar og lífsgæði. Því er mikilvægt að við nýtum okkur allar þær leiðir sem við getum til að heyra og sjá fólkið okkar og pössum líka upp á þá sem búa einir. Þetta ástand getur reynt á þannig að sýnum fólki umhyggju og skilning og ákveðum að horfa á hlutina með jákvæðum augum, það er svo mikið léttara.

Hreyfum okkur
Það er bráðnauðsynlegt fyrir bæði líkamlega og andlega heilsu að hreyfa sig reglulega. Nýtum náttúruna, förum út að ganga, hlaupa og/eða hjóla. Tökum þátt í frábærri Tindaáskorun skátafélagsins Mosverja! Prófum heilsárs ratleikinn sem byrjar við „áhorfenda“brekkuna í Álafosskvosinni!
Kippum með okkur frisbídiskum og prófum frisbígolfvöllum í Ævintýragarðinum fyrir aftan íþróttamannvirkin að Varmá! Nýtum okkar frábæra gönguleiðakort sem nálgast má á mos.is og á bensínstöðvum Olís eða N1. Komdu út – möguleikarnir eru endalausir!

Sköpum tilbreytingu
Við þurfum öll á tilbreytingu að halda þannig að hvernig væri að gera samverudagatal fyrir þessi jól? Dagatal sem snýst um leiki, hreyfingu og samveru fjölskyldunnar? Hægt væri að leyfa öllum í fjölskyldunni að taka þátt í gerð þess í sameiningu og síðan fengi hver og einn að vera með einn dag sem kæmi hinum á óvart?
Hægt væri t.d. að hafa vasaljósagöngu, spilakvöld, baksturskvöld, kósýkvöld, stjörnuskoðun og ýmislegt fleira spennandi í dagatalinu. Dagatal sem þetta þarf ekki að kosta krónu en það er alveg klárt að það skapar skemmtilegar samverustundir og dýrmætar minningar.

Þakklæti
Það er alveg ljóst að ástandið hefur keyrt niður hraðann í samfélaginu, takmarkað val okkar og gert líf okkar einfaldara á margan hátt. Nú reynir á þrautseigju okkar og seiglu til að komast í gegnum þetta saman og um leið er mikilvægt að staldra við og finna eitthvað á hverjum degi sem við erum þakklát fyrir.

Við viljum t.d. færa framlínustarfsfólkinu okkar sérstakar þakkir, þ.e. heilbrigðisstarfsfólki fyrir sín störf á verulega krefjandi tímum og sömuleiðis kennurum allra skólastiga fyrir að leggja sig fram um að skapa börnunum okkar eins eðlilegt líf og hægt er undir þessum kringumstæðum.
Svo eigum við að sjálfsögðu öll hrós skilið fyrir að standa saman þegar á reynir!

Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsufræðingur
og verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ