Kærumál vegna skipulagsbreytinga Reykjavíkurborgar á Esjumelum

Ásgeir Sveinsson

Mosfellsbær og nokkrir íbúar í Leirvogstungu hafa kært Reykjavíkurborg til úrskurðarnefndar skipulagsmála vegna breytinga á deilskipulagi borgarinnar á athafnasvæði hennar á Esjumelum á Kjalarnesi.
Ástæða kærunnar er að Mosfellsbær og þeir íbúar sem eru meðkærendur bæjarins telja breytingarnar séu brot á skipulagslögum og að þær séu ekki í samræmi við skilgreinda landnotkun í gildandi aðalskipulagi Reykjavíkurborgar á svæðinu.

Óheimil breyting á landnotkun
Samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur fyrir 2010-2030 er starfsemi á Esjumelum (AT5) takmörkuð að miklu leyti enda svæðið skilgreint sem „athafnasvæði (AT)“. Um svæðið segir:
„AT5. Esjumelar-athafnasvæði við Vesturlandsveg. Fyrst og fremst iðnaður og önnur starfsemi sem ekki hefur teljandi mengunarhættu, s.s. verkstæði, gagnaver og vörugeymslur.“
Breytingin á svæðinu sem nú hefur tekið gildi og er verið að kæra felst í að skipulögð er 5 hektara lóð fyrir malbikunarstöðina Höfða þar sem fyrirtækið hyggst flytja starfsemi sína á Esjumela. Breytingin felur m.a. í sér að felldar eru niður 12 lóðir og sameinaðar í eina stóra lóð.
Óumdeilt er að umrætt svæði á Esjumelum er skilgreint sem „athafnasvæði (AT)“ í aðalskipulagi. Það er augljóst að malbikunarstöð líkt og sú sem hér er til umfjöllunar telst umfangsmikil iðnaðarstarfsemi eða starfsemi sem talin er geta haft mengun í för með sér. Því til stuðnings má t.d. vísa til þess að miklar kröfur eru gerðar til starfsemi malbikunarstöðvarinnar. Slíkar kröfur eru ekki gerðar nema þegar mengunarhætta er til staðar og því augljóst að malbikunarstöðvar flokkast undir mengandi starfsemi.
Í umhverfisskýrslu VSÓ-ráðgjafar, sem unnin var fyrir Reykjavíkurborg í febrúar 2019, eru malbikunarstöðvar t.a.m. skilgreindar sem „meira mengandi starfsemi,“ og þar er jafnframt tiltekið að slík starfsemi falli undir skilgreiningu „iðnaðarsvæða“. Þá er einnig athyglisvert að sjá hvað fram kemur i auglýsingu Reykjavíkurborgar vegna deiliskipulagsbreytingarinnar, þar sem segir orðrétt að markmiðið sé: „Að tryggja aukið framboð lóða fyrir mengandi iðnað.“ Reykjavíkurborg hefur því nú þegar skilgreint fyrirhugaða starfsemi sem mengandi iðnað sem er bönnuð á athafnsvæði eins og skilgreint er á Esjumelum.

Önnur óheimil breyting á landnotkun
Auk þessarar framangreindu breytingar hafði borgarráð Reykjavíkur áður samþykkt deiliskipulagsbreytingu 2. apríl 2020 á Esju­melum sem einnig fól í sér heimild til að starfrækja malbikunarstöð á Esjumelum, nánar tiltekið á lóð nr. 6-8 við Koparsléttu. Reykjavíkurborg hefur því samþykkt tvær malbikunarstöðvar á athafnasvæðinu á Esjumelum, þrátt fyrir að ekki sé ætlunin að breyta athafnasvæðinu á Esjumelum í iðnaðarsvæði í heild sinni eða að hluta.
Mosfellsbær kærði einnig þessa fyrri deiliskipulagsbreytingu en þeirri kæru var vísað frá kærunefndinni sem tók ekki efnislega á málinu heldur komst að þeirri furðulegu niðurstöðu að Mosfellsbær væri ekki aðili að málinu. Mosfellsbær hefur kvartað til umboðsmanns Alþingis vegna þeirrar niðurstöðu nefndarinnar og liggur niðurstaða í því máli ekki fyrir.

Skipulagslög brotin til að ná fram breytingum
Mosfellsbær hefur mótmælt og gert athugasemdir við þessi áform Reykjavíkurborgar um breytingar á skipulagi á Esjumelum frá upphafi málsins sem var árið 2015 en án árangurs. Haldnir hafa verið fundir með borgarstjóra og skipulagssviði Reykjavikurborgar og í ítrekuðum samtölum verið bent á að þessar breytingar séu brot á skipulagslögum, og breytingar sem þessar eigi að gera með breytingu á aðalskipulagi en ekki rýmkun/aðlögun á deilskipulagi.
Ástæða þess að Reykjavíkurborg fer ekki hefðbundna og löglega leið og breytir aðalskipulagi svæðisins er vegna þess að ströng málsmeðferð gildir um breytingu aðalskipulags og því er ljóst að slík breyting hefði aldrei fengist samþykkt, og er Reykjavíkurborg meðvituð um það. Þess vegna ákveða borgaryfirvöld að gera þessar breytingar í „skjóli nætur“ og fara „bakdyramegin“ með þessar breytingar með mörgum flóknum deilskipulagsbreytingum.

Kæruferli í gangi
Meðferð þessara mála frá hendi Reykjavíkurborgar er þeim ekki sæmandi og bera vott um mikinn yfirgang og tilitsleysi gagnvart Mosfellsbæ, íbúum og umhverfi þeirra.
Mosfellsbær hefur reynt að fá borgaryfirvöld til þess að eiga lögbundið samráð um þessar breytingar við Mosfellsbæ og gert athugasemdir frá upphafi málsins um að þessar breytingar rúmist ekki innan ramma aðalskipulags og stangist því á við skipulagslög. Reykjavíkurborg hefur á engum tímapunkti hlustað á rök Mosfellsbæjar í þeim efnum, og því var síðasta úrræði Mosfellsbæjar að kæra Reykjavíkurborg til úrskurðarnefndar skipulagsmála til að verja sína hagsmuni og íbúa bæjarins. Sú kæra er í ferli hjá úrskurðarnefndinni.

Ásgeir Sveinsson
formaður bæjarráðs og skipulagsnefndar Mosfellsbæjar