Skógræktarfélagið hlýtur umhverfisviðurkenningu Mosfellsbæjar
Umhverfisnefnd Mosfellsbæjar veitti á dögunum árlegar umhverfisviðurkenningar. Viðurkenningarnar eru veittar þeim aðilum sem taldir eru hafa skarað fram úr í umhverfismálum.
Skógræktarfélag Mosfellsbæja fær viðurkenningu fyrir góð störf að skógræktarmálum í Mosfellsbæ um margra ára skeið. Skógræktarfélagið hefur áratugum saman unnið óeigingjarnt starf við skógrækt í Mosfellsbæ með uppbyggingu fallegra skógarlunda og útivistarsvæða og þannig stuðlað að fallegra umhverfi í bænum og aukinni útivist og heilsurækt íbúa.
„Við erum gríðarlega þakklát fyrir þessa viðurkenningu og fyllumst stolti. Þetta hvetur okkur svo sannarlega til að halda áfram á sömu braut,“ segir Björn Traustason formaður skógræktarfélagsins en viðurkenningin var veitt í Hamrahlíð, glæsilegu útivistarsvæði Mosfellinga.
Til stóð að aðalfundur Skógræktarfélags Íslands yrði haldinn með mikilli dagskrá í Hlégarði í byrjun september. Vegna sóttvarnarreglna og fjöldatakmarkana þurfti því miður að fresta honum og þeirri dagskrá sem búið var að undirbúa í tilefni 90 ára afmæli félagsins.
Þá fengu þrír garðar verðlaun.
Bergholt 10
Guðlaug Helga Hálfdánardóttir og Ásbjörn Þorvarðarson fá viðurkenningu fyrir fallegan og fjölskrúðugan garð að Bergholti 10 sem sinnt hefur verið af mikilli natni um langt skeið.
Einiteigur 4
Guðlaug Anna Ámundadóttir og Snorri Böðvarsson fá viðurkenningu fyrir sérlega fallegan og vel skipulagðan garð að Einiteig 4 þar sem lögð er áhersla á fallegt umhverfi og tengingu við náttúruna í kring.
Litlikriki 68
Ragnhildur Sigurðardóttir og Jón Andri Finnsson fá viðurkenningu fyrir fallegan og vel skipulagðan garð að Litlakrika 68 þar sem lögð er áhersla á frumlega hönnun og tengingu við náttúruna.