Ný umhverfisstefna innleidd – stefna fyrir alla bæjarbúa
Mosfellsbær er fyrsta íslenska sveitarfélagið sem setur sér ítarlega umhverfisstefnu með hliðsjón af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Markmiðið með vinnunni er að setja fram stefnu um hvernig Mosfellsbær geti þróast á sjálfbæran og framsækinn hátt á næstu árum í samvinnu við íbúa og aðra hagsmunaaðila.
Mosfellsbær lengi framarlega í umhverfismálum
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar samþykkti árið 2001 fyrstu Staðardagskrá 21 í Mosfellsbæ, framkvæmdaáætlun um sjálfbært samfélag.
Ráðist var í endurskoðun á Staðardagskrá 21 árið 2008 og var þar um að ræða metnaðarfulla áætlun sem var sett fram í samráði við íbúa á sérstökum íbúafundi. Áætlunin var þrískipt, með framsetningu stefnumótunar um sjálfbært samfélag til ársins 2020, framkvæmdaáætlunar til lengri tíma byggða á stefnumótuninni og gerð árlegs verkefnalista í samráði við nefndir og yfirstjórn.
Stefna sem er einföld og aðgengileg fyrir íbúa
Mosfellsbær ákvað svo að endurskoða umhverfisstefnu Mosfellsbæjar í október 2017. Þá voru heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna búin að taka við af Staðardagskrá 21 og þjóðir því búnar að samþykkja ný markmið um sjálfbærni.
Markmið við endurskoðuninni var að setja fram stefnu sem væri einföld og aðgengileg og unnin í samvinnu við íbúa, jafnframt því að vera metnaðarfull og raunhæf.
Þvert á kjörtímabil og samráð við íbúa
Lögð var áhersla á að vinna við endurnýjun stefnunnar væri fagleg og lýðræðisleg. Sú vinna var í höndum umhverfisnefndar Mosfellsbæjar og var það meðvituð ákvörðun að láta vinnu við stefnuna ná milli kjörtímabila, til að skapa betri sátt um verkefnið.
„Lögð var áhersla á samráð við íbúa og voru haldnir íbúafundir við upphaf vinnu og á seinni stigum verkefnisins. Einnig var leitað til ráðgjafa til að aðstoða við gerð stefnunnar,“ segir Bjartur Steingrímsson formaður umhverfisnefndar Mosfellsbæjar.
Horft til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna
Í hverjum kafla umhverfisstefnunnar er gerð grein fyrir því hvaða kafla heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna er sérstaklega horft til. Sérstaklega er horft til heimsmarkmiða sem snúa að sjálfbærni sveitarfélaga, skipulagi þeirra og uppbyggingu. Þá mun Mosfellsbær horfa til Heimsmarkmiðanna við endurnýjun aðalskipulags Mosfellsbæjar og annarra stefna sveitarfélagsins.
Metnaðarfull stefna sem hefur vakið athygli
„Ég fagna því að við séum að kynna umhverfisstefnuna fyrir bæjarbúum, enda stefna fyrir alla Mosfellinga,“ segir Bjartur.
„Umhverfismál eru eitt stærsta málefni samtímans og ég held að fleiri og fleiri séu að verða sammála um mikilvægi þeirra.
Við sömdum þessa stefnu þannig að hún væri læsileg, stutt og hnitmiðuð því við viljum að allir geti skilið hana, bæði unglingar og eldri borgarar.
Þessi vinna sýnir að Mosfellsbæ er umhugað um umhverfið sitt, en bæjarfélagið telst mjög framsækið í umhverfismálum. Við leggjum áherslu á að vernda náttúrunna og hvernig er hægt að nýta hana, njóta hennar og vernda. Það var mikill einhugur og stuðningur við að fara í þessa vinnu og gera hana í sem breiðastri sátt og það náðist ótrúlega vel.
Þetta er metnaðarfull stefna og með því róttækara sem bæjarfélag hefur sett fram og hefur hún vakið verðskuldaða athygli.
Smelltu hér til að skoða umhverfisstefnu Mosfellsbæjar