Ég nýt þess að skapa

Jón Þórður Jónsson tæknifræðingur býr til fallega og nytsamlega hluti úr trjám í bílskúrnum hjá sér.

Það kennir ýmissa grasa í Smiðju Jóns Þórðar í Byggðarholtinu en þar má finna ýmsa fallega hluti unna úr tré. Jón sem er afar handlaginn nýtur þess að skapa en efniviðinn sækir hann að mestu leyti í sinn eigin garð ásamt því að leita til vina og vandamanna.
Í gegnum árin hefur trésmíðavélum fjölgað í Smiðjunni sem þýðir meira úrval en megnið af hlutunum sem Jón býr til selur hann á sumrin í Handverkshúsi ASSA á Króksfjarðarnesi við Gilsfjörð.

Jón Þórður er fæddur í Reykjavík 26. september 1943. Foreldrar hans eru þau Lára Þóra Magnúsdóttir frá Dalasýslu og Jón Þórður Hafliðason frá Breiðafirði en þau eru bæði látin. Stjúpfaðir Jóns Þórðar var Hans Rudolf Andersson.
Jón á tvær hálfsystur, þær Ellen Heklu og Karin.

Fóru hinar ýmsu krókaleiðir
Fyrsta heimili Jóns Þórðar var á Baldursgötu en eftir að faðir hans lést 1944 þá flutti hann ásamt móður sinni að Njálsgötu. Fyrstu minningar Jóns frá þessum tíma voru ferðalögin til afa og ömmu á Hverfisgötu sem voru oft þyrnum stráð. Hættulegir hundar á leiðinni, hávaði frá loftpressum og menn að brjóta upp götur svo það þurfti oft að fara hinar ýmsu krókaleiðir.
Á þessum tíma eignast hann stjúppabba og tvær systur og voru þær breytingar mjög spennandi. Árið 1947 fluttist fjölskyldan að Heimalandi við Vatnsenda í Kópavogi. Þar bjó Jón öll sín æsku- og unglingsár.

Veiddu silung í Elliðavatni
„Það var gott að vera barn og unglingur á Heimalandi, enda í hálfgerðri sveit. Þar voru hænsn, endur, gæsir, hundur og einn hrútur á tímabili. Það voru ræktaðar kartöflur og allar helstu grænmetistegundir og svo var veiddur silungur á sumrin í Elliðavatni.
Á svæðinu við Vatnsenda voru margir sumarbústaðir og krakkahópurinn því stór svo ekki vantaði leikfélaga. Þegar ég var 9 ára fór ég í sveit á Litla-Múla í Saurbæ og síðar í Túngarð á Fellsströnd og á góðar minningar þaðan.“

Þeir kenndu okkur krökkunum að læra
„Í upphafi voru litlar sem engar samgöngur á svæðinu og því erfiðleikum bundið að komast í skóla svo ég fór því ekki í hann fyrr en ég varð átta ára. Rétt við Elliða­vatnsstífluna voru tveir vaktmenn, þeir Bjarni og Ólafur, en þeir bjuggu í litlu húsi við stífluna. Þetta voru heiðursmenn því þeir leiðbeindu okkur krökkunum í lestri, skrift og reikningi áður en við byrjuðum í skólanum.“

Lauk námi í rennismíði
Fyrsti skólinn á skólagöngu Jóns var Kársnesskóli í Kópavogi en þangað fóru krakkarnir með skólabíl. Síðan fór Jón í Langholtskólann en lauk fullnaðarprófi í Miðbæjarskólanum í Reykjavík. Gagnfræðanámið sótti Jón í Réttarholtsskóla og Verknámsskólann í Brautarholti. Hann lauk námi í rennismíði frá Iðnskólanum í Reykjavík og Vélsmiðjunni Héðni árið 1964. Jón var eitt sumar í búnaðarskóla í Hammenhög á Skáni í Svíþjóð.
Á skólaárunum starfaði Jón við hin ýmsu störf, hann seldi blöð, var sendill, var á sjó, vann við pökkun og í byggingar- og fiskvinnu.

Fluttu til Svíþjóðar
Árið 1961 kynntist Jón Þórður Sigrúnu Stellu Guðmundsdóttur sjúkraliða. Þau giftu sig 27. apríl 1963. Fyrsta heimili þeirra var í Snekkjuvogi í Reykjavík en svo fluttu þau hjónin að Elliðavatni í Kópavogi en þar bjuggu afi og amma Stellu. Meðan þau bjuggu þar fæddist fyrsta barn þeirra, Sigrún Brynja, en hún er fædd 1964.
Um haustið sama ár fluttist fjölskyldan búferlum til Svíþjóðar til Boxholm í Austur-Gautlandi en þar bjó Lára móðir Jóns. Árið 1965 fluttust þau svo til Sandby Egendom sem er sveitasetur nálægt Vadstena en þar hafði Jón fengið starf sem vélaumsjónarmaður. Á meðan þau bjuggu á Sandby fæddust drengirnir þeirra, Hafliði 1967 og Kristján 1970.
Eftir 5 ára veru þar hóf Jón nám í tæknifræði við Motala Tekniska Aftonskola í Motala og lauk því árið 1971. Jón hóf síðan störf sem tæknifræðingur hjá Luxor Radio.

Byggðu sér hús í Mosfellsbæ
Árið 1972 flutti fjölskyldan heim aftur og bjuggu þau þá fyrst í Reykjavík en fluttu síðan í Reykjahlíð í Mosfellsdal á meðan þau byggðu sér hús í Byggðarholtinu en þangað fluttu þau 1975.
Jón hóf störf hjá Velti, Volvo umboðinu á Íslandi, en árið 1977 réði hann sig til starfa hjá Íslenska álfélaginu, ISAL. Jón lét af störfum árið 2009.

Stofnaði kór í Straumsvík
Jón hefur verið mikið í félagsmálum í gegnum tíðina. Hann starfaði með Björgunarsveitinni Kyndli í Mosfellsbæ og var þar einnig í stjórn. Hann var einnig félagi í Karlakórnum Stefni og Lionsklúbbi Mosfellsbæjar.
Jón er nú félagi í kirkjukór Lágafellssóknar en var áður starfandi í sóknarnefndinni. Hann var í stjórn FaMos og svo syngur hann með kór aldraða, Vorboðunum.
Jón stofnaði Álkórinn, kór starfsmanna ISAL í Straumsvík 2003 en hann starfaði í 5 ár.

Smiðja Jóns Þórðar
„Þegar ég varð sjötugur fékk ég trérennibekk að gjöf frá fjölskyldunni og síðan þá hef ég verið að renna og smíða úr tré. Ég lærði rennismíði á sínum tíma og ég nýt þess að skapa.
Ég hef smíðað alls konar fugla, bauka, vasa og kertastjaka en efnið hefur verið að mestu alls konar tré úr garðinum okkar. Vinir og vandamenn hafa líka gefið mér efni úr görðum og skógum. Ég vinn t.d. úr gullregni, birki, furu, linditré og fleiru. Í gegnum árin hefur trésmíðavélum fjölgað í Smiðjunni og nú er ég farinn að gera líka brauð- og ostabretti.
Fólk hefur verið að kíkja hingað til mín í bílskúrinn og versla og það er bara gaman að því. Hægt er að skoða hlutina mína á Facebook undir Smiðja Jóns Þórðar.
Á sumrin förum við hjónin með hlutina mína vestur á Króksfjarðarnes við Gilsfjörð en þar er Handverkshúsið ASSA, við seljum megnið af þeim þar.“

Njóta lífsins í Flatey
„Við Stella höfum ferðast nokkuð mikið í gegnum árin, fyrst í tjaldi, svo A-hýsi en nú erum við búin að fá okkur húsbíl og erum í ferðafélagi sem heitir Ferðavinir.
Við höfum verið eigendur að Myllustöðum í Flatey á Breiðafirði ásamt frændfólki mínu síðan 1997 og eigum þar tíundu hverja viku í húsinu. Við eigum gúmmíbát með 30 hestafla mótor sem við tökum með þegar við förum vestur. Það er mikið farið út á bátnum til að veiða og þá aðallega þorsk og aflinn dugar okkur Stellu allt árið.
Fjölskyldan og vinir hafa verið dugleg að mæta með okkur og við njótum lífsins á þessari dásamlegu eyju, það er hreinlega hvergi betra að vera,“ segir Jón Þórður að lokum.

Mosfellingurinn 12. mars 2020
ruth@mosfellingur.is