Eflum menntasamfélagið í Mosfellsbæ
Fjárhagsáætlun fyrir næsta ár var afgreidd á bæjarstjórnarfundi þann 27. nóvember síðastliðinn. Eins og áður eru fræðslumálin langstærsti málaflokkurinn og fer um 52% af útgjöldum bæjarins í málaflokkinn eða um 5.712 mkr.
Áætlunin ber merki þess að bæjarstjórn leggur mikla áherslu á að efla menntasamfélagið í Mosfellsbæ. Mikil fjölgun barna í bænum hefur kallað á aukið fjármagn til málaflokksins og aukast framlög til hans um 11% milli ára.
Helstu áherslur fjárhagsáætlunar í fræðslumálum eru:
Stoðþjónusta efld. Mikil áhersla hefur verið lögð á að efla stoðþjónustuna í skólum bæjarins. Aðstaða til sérkennslu og stuðnings hefur verið bætt til að mæta þörfum nemenda.
Einnig má nefna aukið stöðugildi talmeinafræðings hjá Mosfellsbæ sem kemur að frumgreiningu barna með skertan málþroska. Börnum af erlendum uppruna hefur fjölgað og hefur stoðin fyrir þau börn verið aukin, svo eitthvað sé nefnt.
Upplýsinga – og tæknimál. Á næsta ári verður haldið áfram að efla upplýsinga- og tækniumhverfi grunnskólanna með megináherslu á spjald- og fartölvur fyrir nemendur og innleiðingu nýrra kennsluhátta.
Ný ungbarnadeild opnar. Þrír leikskólar munu bjóða pláss fyrir yngstu börnin. Leikskólinn Hlíð er ungbarnaleikskóli, á Huldubergi eru tvær ungbarnadeildir og opnar ný deild í Leirvogstunguskóla. Mun plássum því fjölga um 25.
Mosfellsbær er einnig með samninga við ungbarnaleikskóla og dagforeldra í öðrum sveitarfélögum. Ungbarnaskóli/deildir er ný þjónusta samhliða dagforeldrum og stefnir í að öll börn 12 mánaða og eldri verði komin með pláss í vor, mun fyrr en áætlað hafði verið.
Leikskólagjöld lækka. Til að koma enn frekar til móts við fjölskyldur verða leikskólagjöld lækkuð um 5% þriðja árið í röð.
Stöðugildum í Listaskólanum fjölgar. Mikil ásókn er í tónlistarnám og var ákveðið að fjölga stöðugildum í Listaskólanum til að koma til móts við þá eftirspurn. Kennsla verður aukin út í grunnskólunum, sérstaklega kennsla fyrir yngstu nemendurna.
Nýsköpunar– og þróunarsjóður stofnaður. Til að styðja betur við kennara og skólana okkar hefur Mosfellsbær ákveðið að stofna nýsköpunar– og þróunarsjóð. Verður hægt að sækja um styrki til að koma nýjum hugmyndum á laggirnar eða þróa enn frekar starf sem þegar er í gangi.
Fræðslunefnd mun ákveða hverjar áherslur hvers árs verða og auglýsa eftir styrkumsóknum.
Markmið sjóðsins er að stuðla að nýsköpun og framþróun í skóla- og frístundastarfi leik- og grunnskólum. Skilyrði fyrir styrkveitingu er að verkefnin verði kynnt í skólasamfélagi Mosfellsbæjar og heimilt verði að nota verkefnin af öðrum en styrkhöfum. Nýsköpunar- og þróunarverkefnum verður gert hátt undir höfði með sérstökum viðburði og kynningu þegar kemur að styrkafhendingu, slíkt er afar jákvætt og hvetjandi fyrir starfsemi leik- og grunnskóla í Mosfellsbæ.
Stjórnendur og starfsfólk bera uppi starfið
Stjórnendur og starfsfólk skólanna bera uppi skólastarfið og verður seint fullþakkað fyrir þeirra mikilvæga starf. Mosfellsbær vill standa vörð um skólastarfið í öllum skólum bæjarins og halda áfram að byggja upp framúrskarandi skólastarf.
Þessi hópur, starfsfólk Mosfellsbæjar, leysir verkefni sín á grunni virðingar, jákvæðni, framsækni og umhyggju fyrir þeim verkefnum sem þeim eru falin. Þannig stöndum við saman að uppbyggingu menntasamfélagsins í Mosfellsbæ.
Kolbrún G. Þorsteinsdóttir,
bæjarfulltrúi og formaður fræðslunefndar