Jafnrétti í íþróttum
Það sem veðrið er búið að leika við okkur hérna megin landsins í byrjun sumars, þetta er bara dásamlegt.
Við fjölskyldan erum til dæmis búin að fara á tvö stór fótboltamót í Vestmannaeyjum og á Sauðárkróki og það hefur varla rignt, þetta gerir allt svo miklu betra og auðveldara. Ég er mjög upprifin yfir þessum fótboltaferðum, það er fyrir það fyrsta svo gaman að fylgjast með börnunum sínum takast á við sig sjálf, taka framförum, hafa gaman með liðsfélögum og ekki síst kynnast foreldrar á allt annan hátt þar sem svona mikil samvera á sér stað.
Við sem komum að skipulagningu íþróttastarfs vitum vel hversu mörg handtök sjálfboðaliðanna eru fyrir svona viðburði og kann ég þessum skipuleggjendum bestu þakkir fyrir frábæra umgjörð.
Það er þó eitt sem situr í mér á árinu 2019. Hvernig er jafnréttinu háttað í íþróttum barnanna okkar? Er það jafnrétti að á sama fótboltamóti í sama bæjarfélagi sjá stelpurnar sjálfar um skemmtiatriðin með hæfileikakeppni meðan strákarnir fara í skrúðgöngu og fá skemmtiatriði frá skemmtikrafti ?
Eða
Á sambærilegum fótboltamótum er stelpum 9–10 ára boðið upp á Tímon og Púmba sem hentar kannski á leikskóla og strákarnir hlusta á Jón Jónsson skemmta.
Eða
Þú ferð á leik í Inkasso hjá stelpunum og það er ekki einu sinni boltasækir á vellinum (sem ég varð vitni að á Kópavogsvelli) eða leik í sömu deild hjá strákunum þar sem umgjörðin er öll önnur.
Þetta er umræða og viðhorf sem við verðum að opna hugann fyrir. Ég veit að það er erfitt að breyta fullorðna fólkinu en berum alla vega gæfu til þess að ala það upp í börnunum okkar að kynin eru jöfn og hafa jafnan rétt.
Oft vill umræðan í íþróttum fara að snúast um krónur og aura, en hjá börnunum okkar er sama gjald til að iðka íþróttir hvort sem við erum kvenkyns eða karlkyns og það er sama mótsgjald fyrir stelpur og stráka. Þó að ég vitni í persónulega reynslu í fótboltanum er ég sannarlega með allar greinar í huga.
Ég held eftir að hafa pælt mikið og talað við ýmsa þar á meðal fulltrúa KSÍ, fyrrum landsliðskonu og foreldra, að við í Aftureldingu stöndum okkur mjög vel í samanburði við önnur félög EN betur má ef duga skal. Ef þið hafið góða hugmynd til þess að auka jafnrétti í íþróttum er ég mjög tilbúin til að heyra hana, en fyrst og fremst verðum við að byrja á okkur sjálfum.
Áfram Afturelding.
Birna Kristín Jóndóttir,
mamma og formaður Aftureldingar.