Breyting á deiliskipulagi í Helgafellshverfi – Stórir bílar?

torg2

Stefán Ómar Jónsson

Stefán Ómar Jónsson

Framboð Vina Mosfellsbæjar lagði á það áherslu í stefnu sinni fyrir kosningarnar 2018 að stemma ætti stigu við sífelldum deiliskipulagsbreytingum og að rök fyrir þeim breytingum sem fallist væri á ættu að vera í almannaþágu og til bóta fyrir heildina jafnt og umsækjendur breytinganna.
Á 487. fundi skipulagsnefndar Mosfellsbæjar þann 31.05.2019 var fyrsta mál á dagskrá mál nr. 2017081506 – Torg í Gerplu­stræti – breyting á deiliskipulagi. Í gögnum þess máls var ekki að finna gögn sem rökstuddu það að breytinguna ætti að gera og því lagði undirritaður til að hætt yrði við breytinguna og til vara að henni yrði frestað meðan leit væri gerð að gögnum sem rökstutt gætu breytinguna. Breytingin er fólgin í því að beygjuradíusar á endum torgsins eru rýmkaðir fyrir beygjur „stórra bíla“ eins og það er orðað á deiliskipulagsuppdrættinum.

Hvaða stóru bíla er átt við? Eða af hverju rýmka þarf fyrir þá núna liggur ekki fyrir í gögnum málsins eins og fyrr segir. Þrátt fyrir lipurð og velvilja starfsmanna umhverfissviðs hafa gögn sem rökstyðja þessa breytingu ekki fundist. Undirritaður hefur því óskað eftir því við bæjarstjóra að hann gangi í það að finna þessi gögn og leitað verði til arkitektastofunnar, sem bjó deiliskipulagsgögnin til, svo varpa megi ljósi á undirliggjandi rök í málinu. Undirritaður bíður nú svara bæjarstjóra.
Það kann að vera að það sé skynsamlegt að rýmka beygjuradíus torgsins en þá hefðu rök fyrir því átt að fylgja með þegar deiliskipulagsbreytingin var auglýst á sínum tíma. Því þá hefðu íbúar Helgafellshverfis og aðrir hagsmunaaðilar haft fyrirliggjandi skýr og gagnsæ rök þegar þeir tóku afstöðu til breytingarinnar.

Með sumarkveðju til allra Mosfellinga
Stefán Ómar Jónsson
aðalmaður í skipulagsnefnd og
bæjarfulltrúi L-lista Vina Mosfellsbæjar