Mosfellsheiði
Árbók Ferðafélags Íslands 2019 kemur óvenjusnemma þetta vorið eða í fyrrihluta apríl. Á liðnum árum hefur útkoman verið nokkru síðar eða í maí.
Að þessu sinni er Mosfellsheiðin tekin fyrir og er margt gott að finna í ritinu einkum þar sem lýst er leiðum eftir gömlum en misjafnlega niðurföllnum vörðum. Munu vera nálægt 800 vörður og vörðubrot á heiðinni en Mosfellsheiði var lengi vel ein fjölfarnasta leið í landinu og er enn.
Sitthvað má finna að þessu verki. Titill árbókarinnar er Mosfellsheiðin en spyrja má hvar höfundar þessa rits draga mörkin því einn kaflinn er teygður á gamla þingstaðinn og getið allra þeirra hátíða sem þar fóru fram allt frá 19. öld. Auðvitað áttu þeir sem leið á Þingvöll oftast leið um Mosfellsheiði en hefði ekki þurft að minnast á þetta atriði sérstaklega í titli verksins ef þetta átti að vera hluti ritsins?
Ein mjög slæm staðreyndavilla kemur fram í bókinni. Fyrrum var Seljadalur í Mosfellsbæ mikilvægur vettvangur seljabúskapar fyrrum. Örnefnið Seljadalur ber með sér að þar hafi verið tvenn eða jafnvel fleiri sel þar í Dalnum. Þekkt er Nessel undir suðurhlíð Grímannsfells en hvar er hitt eða hin selin? Við mynni hans er gömul rétt, Kambsrétt sem var lögskilarétt fram um miðja 19. öld. En um miðja þá 16. verða siðskiptin sem bókstaflega gjörbyltu íslensku samfélagi. Má um það lesa í ritgerð um Þingvallaskóg í Skógræktaritinu 2010.
Viðeyjarsel var eftir máldögum í Seljadal en bókarhöfundar flytja það suður fyrir Lækjarbotna undir Selfjall.
Eitt frægasta hestakvæði á íslenskri tungu er án efa Fákar. Sagt er að Einar Benediktsson hafi fengið hugmyndina að þessu einstaka kvæði á reið sinni um Mosfellsheiðina. Í nokkurs konar boðsriti um þessa bók var á þetta minnst en einhverra hluta vegna hefur þetta ekki ratað í árbókina sem verður að teljast mjög miður. Í staðinn er vikið að gamalli kjaftasögu sem Jón Ólafsson ritstjóri 18 blaða kom á flot en þegar Einar Benediktsson var á leið haustið 1904 austur í Rangárvallasýslu sem nýskipaður sýslumaður, reið hann sökum fótarmeins í kvensöðli í stað venjulegs hnakks. Auðvitað átti þetta vissulega að vera vel valin sneið til skáldsins. Jón Ólafsson átti til að vera nokkuð dyntóttur og gat oft ekki setið á sárs manns höfði enda ritstjórinn til í ýmis konar uppákomur eins og frægt er í sögunni.
Frá Skálabrekku var Hjörtur Björnsson myndskeri og rithöfundur. Hann var þekktur fyrir náttúrurannsóknir sínar. Hann fann a.m.k. tvær sjaldgæfar jurtir við austurbrún Mosfellsheiðar.
Hjörtur dó ungur úr berklum og ritaði kennari hans, Ríkharður Jónsson myndskurðarmeistari, mjög fögur eftirmæli um hann í Vísi 1942. Nokkrum árum áður birtist ritgerð hans um örnefni á Mosfellsheiði í Árbók fornleifafélagsins 1939. En Hjörtur var mjög góður rithöfundur og hefði mátt segja ögn frá honum enda fáir á 20. öld sem tengjast jafn traustum böndum og hann.
Í kaflanum „Náttúrufar“ er gott yfirlit um jarðfræði heiðarinnar sem hefur verið mörgum jarðfræðingum mikill og góður efniviður. Þaðan hafa gríðarmikil grágrýtishraun runnið um langan veg og mótað landslag norðurhluta höfuðborgarsvæðisins. Árni Hjartarson jarðfræðingur hefur bent á að jarðfræðin er í raun nokkuð flóknari. Er bent á það í ritinu og vísað í heimildir.
Gróðurfar á Mosfellsheiði er á margan hátt nokkuð sérstætt. Í dag ber eðlilega mest á mosanum en svo hefur ekki alltaf verið. Gróðurfar hefur breyst mikið á Mosfellsheiði á liðnum öldum. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1704 er getið um að enn séu skógarleifar í landi Elliðakots. Sjálfsagt hefur rányrkja og einkum vetrarbeit sauðfjár gengið nærri birkinu, hinum upphaflega gróðri heiðarinnar.
Um gróðurfarið er einkum byggt á tölvupóstum sem farið hafa milli höfunda og Ágústar H. Bjarnasonar. Ekki ber ég neitt vantraust til hans en ég minnist þess hvergi að hafa rekist jafnoft vísað í tölvupósta og hér í þessu riti. Það verður að teljast mjög óvenjulegt. Tilvísanir og heimildir eru til þess ætlaðar að hefja rit á hærri stall og greinir eðlilega milli vísindarita og skáldsagna.
Það hefði aukið gildi ritsins um Mosfellsheiðina að dokað hefði verið með útgáfu og fengnir hefðu verið staðfróðir aðilar til að lesa yfir og bæta úr göllum. Ekkert mannanna verk er það fullkomið að ekki megi bæta það í einhverju.
Gallarnir eru nokkrir og hefur verið vikið að nokkrum þeirra hér. En mjög margt er vel ritað og sérstaklega þykir mér vel ritaðir kaflarnir um sæluhúsin sem byggð voru á 19. öld og fylgdi ferðamönnum við viðsjárverð veður bæði einsemd og jafnvel draugagangur. Gamlar ljósmyndir af sæluhúsunum á heiðinni eru birtar og hafa þær væntanlega ekki komið fyrir sjónir margra fram að þessu. Og ekki síðri er kaflinn um veitingastaðina eftir að þeir komu við sögu. Má segja að þarna sé upphafið að „sjoppumenningu“ landsmanna sem hvarvetna blasir við ferðamönnum á Íslandi í dag. Þessir veitingastaðir voru víða á leið ferðamanna yfir Mosfellsheiðina og einn þeirra meira að segja uppi nánast á háheiðinni, „Heiðarblómið“ sem bjartsýnn danskur maður kom á fót fyrir rúmlega öld. Þá er kaflinn um samgöngurnar á bifreiðaöld mjög vel ritaður og upplýsandi.
Þingvallaleiðin var eðlilega mjög oft farin. Hún tengdi landshluta saman, Faxaflóasvæðið við Suðurland og algengt var að farið var um Kaldadal og áfram norður að sumri. Langur kafli er um erlenda ferðamenn yfir heiðina og rakin ummæli þeirra um heiðina sem þeim þótti bæði löng og leiðinleg einkum þegar veður voru misjöfn. Þennan kafla hefði mátt stytta verulega enda ekki nauðsynlegt að segja nema í stuttu máli hvaðan þeir komu, hvert þeir fóru og hverja þeir hittu og höfðu misjafnlega reynslu af landsmönnum. Þar reyndi verulega á úthald mitt sem lesanda sem var spenntur að lesa meira um heiðina sjálfa.
Eitt þykir mér vanta um kaflann um Gamla Þingvallaveginn sem tengja mætti jafnframt nútímanum. Þessi gamli vegur var „hannaður“ fyrir ríðandi ferðamenn sem og umferð hestvagna. Í dag gætir sá misskilnings hjá sumum að með því að þræða gamla vegi sé ekki verið „að aka utan vega“. Þessir gömlu vegir voru lagðir með frumstæðri tækni og ekki ætlast til að eftir þeim væri ekið í þungum ökutækjum sem eru kannski 2-3 tonn. Þessir gömlu vegir voru „börn“ síns tíma og þarf að umgangast þá með virðingu. Mjög víða meðfram gamla Þingvallaveginum má allt of mikið af utanvegaakstri þar sem ekið hefur verið eftir að vegurinn sjálfur hefur orðið ófær.
Niðurstaða:
Ágætt og læsilegt rit sem betur hefði mátt úr garði gera. Ljósmyndir eru margar sem sumar hefðu mátt hafa verið teknar við betri aðstæður hvað birtu og árstíð varðar. Villur eru fáar nema nokkrar staðreyndavillur sbr. um Viðeyjarsel sem er flutt nokkuð úr leið. Frágangur ritsins er ágætur, meinlegar prentvillur engar en undirbúning hefði mátt betur vanda.
Guðjón Jensson