Menntun í takt við tímann

varmagreinMenntun og mannauður eru mikilvægar forsendur góðra lífskjara og því til mikils að vinna að yngsta kynslóðin fái þá menntun sem þörf er fyrir á hverjum tíma.
Fjórðu iðnbyltingunni sem þegar er hafin fylgja miklar breytingar á störfum og tækni. Sérfræðingar telja að 65% starfa sem grunnskólabörn munu vinna við séu ekki til í dag og að störf framtíðarinnar muni í auknum mæli byggjast á læsi á tækni og forritunarkunnáttu.
Nú þegar er misræmi á milli þeirrar færni sem atvinnulífið sækist eftir og færni þeirra sem eru á vinnumarkaði. Mikilvægt er því að efla kennslu í tækni og forritun til að mæta þessari hröðu samfélagslegu þróun.
Þótt tækni sé orðin samofin öllu okkar daglega lífi eru flest börn aðeins neytendur á tækni en skapa ekkert sjálf. Það má því segja að þau séu læs á tækni en ekki skrifandi. Í dag er hins vegar orðið nauðsynlegt að hafa grundvallarskilning á því hvernig þessi tæki virka.
Í gegnum forritunarkennslu læra börnin að nálgast vandamál með skapandi og lausnamiðuðum hætti auk þess sem þau þjálfast í rökhugsun, samvinnu og þrautseigju.
Nágrannasveitarfélög okkar eru að efla kennslu í tækni og forritun, auka framboð á forritunarnámi í skóla- og frístundastarfi og veita kennurum fleiri tækifæri til starfsþróunar. Í þeim skólum sem eru hvað lengst komnir er forritun orðin skyldufag sem má auðveldlega samþætta við aðrar greinar.
Hver er stefna og framtíðarsýn Mosfellsbæjar í upplýsinga- og tæknimálum? Í Vegvísinum svokallaða frá 2017 komu fram skýrar óskir kennara um endurskoðun fyrirkomulags á upplýsinga- og tæknimálum.
Nú þegar kennarar eru komnir með aðgang að vinnutölvum og búið er að tengja alla skólana við umheiminn er tímabært að tryggja skólunum tækjabúnað og veita kennurum nauðsynlegan stuðning við innleiðingu á fjölbreyttari kennsluháttum. Við verðum að undirbúa börnin fyrir framtíðina og veita þeim menntun í takt við kröfur nútímans.

F.h. stjórnar Foreldrafélags Varmárskóla
Elfa Haraldsdóttir