Útikennslustofan við Varmá
Nú leyfir heilsan mín mér loksins að ganga lengri vegalengdir en síðustu 2 árin. Ég kemst aftur á gamlar slóðir hér um bæinn okkar. Í dag löbbuðum við hjónin um Ævintýragarðinn eftir endalöngu fram og tilbaka. Þetta er orðið vinsælt og fallegt útivistarsvæði.
En ég varð fyrir áfalli þegar ég sá hvernig útikennslusvæðið Varmárskólans er útileikið. Þarna er búið að brjóta og bramla og eyðileggja allt sem hægt er að skemma. Ég veit ekki hversu lengi það er búið að vera svona.
Þetta þótti á sínum tíma með flottustu útikennslusvæðum á landinu og ég vann á sínum tíma við þróun þess. Ég notaði þá svæðið mikið í minni kennslu. Varmárskólinn fékk Grænfánann sem er viðurkenning fyrir starf í þágu umhverfismenntunnar og átti þetta fyrirmyndar útikennslusvæði þátt í því.
En núna virðist enginn lengur hafa áhuga á þessu starfi og ekkert annað er til ráða en að rífa og fjarlægja það sem stendur eftir af útikennslustofunni. Svona skemmdarverk eru slæm fyrirmynd. Þetta er ekki neinum til sóma og hefur neikvætt uppeldisgildi fyrir ungmennin okkar. Vonandi verður svæðið hreinsað sem fyrst. Spurningin er hvort þetta væri ekki með brýnustu verkefnum í „Okkar Mósó“.