Trjágróður á lóðarmörkum
Ágætu bæjarbúar.
Mikilvægt er að garðeigendur hugi að því að trjágróður þeirra hafi ekki vaxið út á stíga eða götur með tilheyrandi óþægindum og mögulegri hættu fyrir vegfarendur, sérstaklega núna í skammdeginu þegar fjöldi barna er á ferðinni vegna skóla og tómstunda.
Gangstéttir og göngustígar liggja víða um bæinn og eru mikilvæg til útivistar og samgangna milli staða, jafnt fyrir gangandi vegfarendur og hjólreiðafólk. Þegar trjágróður vex út fyrir lóðarmörk og út yfir gangstéttir og stíga bæjarins getur það skapað veruleg óþægindi og jafnvel hættu fyrir vegfarendur.
Dæmi er um að trjágróður skyggi á umferðarmerki, götumerkingar og lýsingu, og byrgi þannig sýn. Í tilfellum sem þessum er bæjaryfirvöldum heimilt að klippa og fjarlægja þann gróður sem vex út fyrir lóðarmörk á kostnað lóðarhafa.
Reglur um gróður á einkalóðum eru skýrar. Í byggingarreglugerð er skýrt kveðið á um að lóðarhafa sé skylt að halda vexti trjáa og runna innan lóðarmarka. Ekki má planta hávöxnum trjátegundum nær lóðarmörkum aðliggjandi lóða en 4,0 metra og við lóðarmörk má hæð þeirra ekki verða meiri en 1,8 metrar, nema með samþykki nágranna.
Trjágróður sem liggur að götu, gangstétt eða opnu svæði má ná meiri hæð ef fyrir liggur samþykki veghaldara eða umráðaaðila viðkomandi svæðis.
Garðeigendur í Mosfellsbæ eru hvattir til að klippa og snyrta allan þann gróður á lóðarmörkum og jafnframt að huga almennt að garðinum öllum og næsta umhverfi. Þar með talið eru bílhræ, tæki og tól í niðurníðslu sem eiga það til að safnast fyrir innan lóðarmarka.
Þannig getum við öll hjálpast að við að hafa bæinn okkar snyrtilegan og fallegan.
Frekari upplýsingar um umhirðu gróðurs má finna hjá þjónustustöð Mosfellsbæjar og á heimasíðu Mosfellsbæjar, www.mosfellsbaer.is/thjonusta/skipulag-og-umhverfi/thjonustustod/
Heiða Ágústsdóttir
Fagstjóri garðyrkju og skógræktar