Atómstöðin, Gerpla og Heimsljós

varmagreinÍ Varmárskóla stunda hátt í 1.000 börn nám og er þetta kraftmikill hópur með fjölbreytta reynslu og styrkleika sem býr yfir mikilli lífsgleði og sköpunarkrafti.
Til að tryggja að börnin fái notið bernsku sinnar þarf að búa vel að yngstu íbúum bæjarins og leggja áherslu á snemmtæka íhlutun. Allir eiga rétt á kennslu við sitt hæfi og því þarf að taka mið af þroska hvers og eins, ólíkum þörfum og bakgrunni. Námsumhverfið þarf að vera hvetjandi svo hægt sé að laða fram hæfileika allra nemenda með markvissum hætti því öll börn eru einstök. Vellíðan í skóla er grundvöllur námsárangurs og því mikilvægt að nota fjölbreyttar uppeldis- og kennsluaðferðir til að geta mætt börnunum þar sem þau eru stödd.
Atómstöðin, Gerpla og Heimsljós eru stofur í eldri deild Varmárskóla sem nefndar eru eftir verkum nóbelskáldsins. Um er að ræða þrjú námsver, þar af tvö ný, þar sem allir nemendur geta leitað sér stuðnings varðandi nám og líðan og átt athvarf í erli dagsins.

Á stuttum tíma hefur Áslaug Harðardóttir, deildarstjóri sérkennslu í eldri deild, ásamt sínu góða starfsfólki unnið grettistak í að móta heildarsýn á aðstæður þar sem hagsmunir barnsins eru ávallt hafðir að leiðarljósi og lögð áhersla á að það fái verkefni, kennslu og stuðning við hæfi. Það hefur verið magnað að fylgjast með, síðan námsverin voru tekin í notkun, því trausti sem hefur myndast milli nemenda og starfsmanna sem standa alltaf vaktina, líka í frímínútum og hádegismat. Áslaug og hennar teymi leggja mikið upp úr að vera til staðar á „gólfinu“ og hlusta á nemendur í umhverfi þeirra til að geta betur sett sig inn í aðstæður hvers og eins af umhyggju og virðingu.

Nemendum á einhverfurófinu hefur verið veitt sérstök athygli og það skilað góðum árangri. En þjónustan er ekki bundin við afmarkaðan hóp nemenda heldur leita sífellt fleiri í námsverin sem vilja nýta sér þessa frábæru aðstöðu sem stendur öllum nemendum til boða. Mikil ánægja er meðal foreldra með þessa uppbyggingu þar sem umhyggja, sveigjanleiki, hvatning og virðing er í fyrirrúmi. Samskipti heimilis og skóla eru markviss, foreldrar meðvitaðri en áður um hagi barna sinna og hvaða þjónustu þau eru að fá.
Áslaug og hennar teymi eiga mikið lof skilið ásamt fræðsluyfirvöldum fyrir þá aðstöðu og vinnu sem lögð hefur verið í að gera námsverin að veruleika. Ánægjulegt er að sjá hversu vel nemendur taka þessari þjónustu og þann marktæka árangur sem hún er að skila. Áhugavert verður að fylgjast með námsverunum vaxa og styrkjast enn frekar enda mikilvægt að hlúa vel að styrkleikum hvers og eins þannig að börnin séu í stakk búin til að takast á við líf í síbreytilegu samfélagi.

Fyrir hönd stjórnar Foreldrafélags Varmárskóla
Elfa Haraldsdóttir