Heimsmenning – fjölmenning – okkar menning

Sigrún Guðmundsdóttir

Sigrún Guðmundsdóttir

Er heimurinn að minnka? Okkur finnst það stundum því við fáum innsýn (oft án þess að við leitum eftir því) og erum sjálf í tengslum við fjarlægar slóðir.
Við getum farið heimshorna á milli og heimshornaflakkið kemst jafnvel léttilega fyrir í sumarfríinu okkar. Það eru sem sagt töfrandi tímar fyrir mörg okkar sem njótum heimsmenningar. En við heyrum líka daglega af hryllilegum átökum í ýmsum heimshornum og flóttamannastraumurinn er víða, þótt ekki komi margir flóttamenn hingað.
Straumur verkafólks hingað er hins vegar talsverður. Mikið er um láglaunastörf hér sem verkafólk frá Evrópu er velkomið að sinna. Aðrir, helst fólk utan Evrópusambandsins fær enga vinnu hér, þótt það sé bláfátækt og fái ekki vinnu heima hjá sér.
Við Íslendingar erum hins vegar svo vel „í sveit sett“ að mörg okkar geta farið til nágranna okkar í Noregi og fengið þar góð laun. Það þykir sjálfsagt að fara, jafnvel þótt við séum ekki bláfátæk og getum fengið eitthvað að gera hér.
Við Íslendingar getum líka farið í háskóla víða um heim, og ég gerði einmitt það, fyrir akkúrat 30 árum. Ég valdi að kynnast mínum upprunaslóðum, Þýskalandi. Ég kynntist vel fólkinu mínu sem upplifði seinni heimsstyrjöldina, með öllum þeim hryllingi sem henni fylgdi eins og hungri og herþjónustu.
Ég man að mér fannst ansi pirrandi þegar ætlast var til af mér trekk í trekk að klára matinn á boðstólum af því ég væri svo ung …­ þangað til ég fattaði þetta með hungrið … Þegar samhengi fæst við raunveruleika annarra verður oft svo miklu auðveldara að takast á við það sem manni finnst ekki við hæfi (eða er framandi). Þegar ég var að alast upp hér heima kynntist ég dómum landans á seinni heimsstyrjöldinni. Þessir dómar höfðu þau áhrif á mig að ég skammaðist mín fyrir upprunann, langt fram eftir aldri.
En af hverju á barn að skammast sín fyrir uppruna sinn? Það er ekki gott veganesti. Auðvitað er það ekki ætlunin, en fjölmörg börn verða fyrir alls kyns misrétti vegna uppruna síns. Þetta á ekki bara við um börn, ég tala bara sérstaklega um þau því það auðveldar skilning á efninu. Ég er að tala fyrir frjálslyndi til hagsbóta fyrir samfélagið. Maður getur ekki vitað forsögu hvers og eins en maður kemst langt á fordómaleysi, velvilja og kurteisi í að móta gott samfélag.
Rauði krossinn hér í Mosfellsbæ vinnur að ýmsum fjölmenningarverkefnum. Síðasta vetur var hér brilljant enskukennsla í boði fyrir hælisleitendur, kennarararnir Björk Ingadóttir og Elín Eiríksdóttir (FaMos) gáfu vinnu sína í þágu hælisleitenda.
Fjölmargir Mosfellingar tóku svo til hendinni þegar flóttafólkið okkar frá Úganda kom hingað síðasta vetur, gerðu húsnæði þeirra vistlegt og leiðbeina þeim nú um íslenskt samfélag – fyrsta kastið hér á Fróni.
Hjá Rauða krossinum gefast ýmis góð tækifæri til að vera með og kynnast fólki víða að úr heiminum. Já, og Rauði krossinn í Mosfellsbæ er ávallt opinn fyrir góðum hugmyndum og hvet ég sérstaklega, frjálslynda heimsmenningarsinna að vera í bandi.
Með heimsmenningarkveðju.

Sigrún Guðmundsdóttir
ritari í stjórn RK Mosfellsbæ