Úr sófanum á 7 tinda
„Ef einhver hefði sagt mér vorið 2013 að eftir fjögur ár myndi ég hlaupa alla 7 tindana í Tindahlaupi Mosfellsbæjar og verða Tindahöfðingi þá hefði ég hlegið upp í opið geðið á viðkomandi. Maður á aldrei að segja aldrei,“ segir Óskar Þór Þráinsson starfsmaður á bæjarskrifstofum Mosfellsbæjar.
Það erfiðasta sem ég hef gert
Hann byrjaði að skokka 17. júní árið 2013 og gat varla hlaupið að milli ljósastaura, eins og hann orðar það sjálfur.
„Tveimur mánuðum seinna fór ég mitt fyrsta 10 km hlaup í Reykjavíkurmaraþoninu. Með viljann að vopni fór ég ári síðar í hálfmaraþon og var það það erfiðasta sem ég hef gert.
Á þessum tíma var ég óviss um hvað ég ætti að taka mér fyrir hendur næst. Þetta sumar hafði ég tekið þátt í mínu fyrsta utanvegahlaupi, hálfu Barðsneshlaupi (13 km) á Austfjörðum, sem ég hafði varla ráðið við.
Er þetta eitthvað fyrir mig?
Konan mín sá þá auglýsingu fyrir Tindahlaupið í Mosó og spurði mig hvort þetta væri ekki eitthvað fyrir mig. Ég var alls ekki viss. Ég vissi vel af þessu hlaupi en hafði miklað fyrir mér að vera að hlaupa upp á fjall, sérstaklega eftir hrakfarirnar fyrir austan.“
Að áeggjan konunnar ákvað Óskar þó að láta slag standa og prófa að taka þátt. „Ég las meðal annars um Tindahöfðingjanafnbótina og gat ekki ímyndað mér hvernig nokkur maður gæti hlaupið 37 km yfir 7 tinda í einu lagi.“
Hlaupabakterían tekur sér bólfestu
„Ég fór minn fyrsta tind 30. ágúst 2014 í 10° hita og léttri þoku á Úlfarsfellinu. Ég hljóp yfir forarmýrarnar í átt að Hafravatni og kom í mark drullugur upp yfir haus fullur af óstjórnlegri gleði yfir magnaðri upplifun. Þrátt fyrir takmarkað útsýni var upplifunin alveg mögnuð.
Það var þetta haust sem hlaupabakterían tók sér varanlega bólfestu í mér. Ég tók þátt í fleiri hlaupaviðburðum á götum og utanvega og hljóp síðan mitt fyrsta heila maraþon í RM 2015. Það var það erfiðasta sem ég hafði gert. Ég gat því eðlilega ekki stillt mig um að skrá mig í þrjá tinda í Tindahlaupinu í kjölfarið.“
Í sigurvímu með þrjá tinda og maraþon
„Tindarnir þrír 2015 voru bókstaflega æði. Það var snilldar utanvega-fjallgönguhlaup í brjálaðri sumarblíðu. Útsýnið var æðislegt, ég átti mun auðveldara með að komast upp á Úlfarsfellið og það var hæfilega krefjandi að koma sér upp á síðari tindana tvo.
Í sigurvímu með þrjá tinda og maraþon á bakinu ákvað ég strax að setja markið hátt og stefna á 5 tinda að ári. Ég vissi að það myndi krefjast enn meiri þjálfunar. Ég fór því að fara reglulega í gönguferðir á fellin í Mosó og önnur fjöll. Sumarið 2016 fór ég í tvöfalda Vesturgötu, 46 km fjallahlaup á Vestfjörðum, sem reyndist mér næstum ofviða. Ég kom mér á strik aftur um sumarið, hljóp yfir Fimmvörðuháls með Náttúruhlaupum og kom mér í stand.“
Stóra áskorunin
„Tindana fimm hljóp ég 27. ágúst 2016 í skýjuðu en annars ágætu veðri. Ég var svo heppinn að hafa frábæran hlaupafélaga meginþorra leiðarinnar, hana Höllu Karen, driffjöður Mosóskokks. Ég verð að viðurkenna að brekkan upp á fyrsta hluta Grímannsfells reyndist mög líkamlega og andlega krefjandi. Ég rúllaði í mark fyrir rest í sigurvímu.
Á þessum tímapunkti sá ég fyrir mér að ekkert annað í stöðunni en að leggja enn meira á mig og fara alla helv… 7 tindana að ári. Ég fór því inn í haustið og veturinn af enn meiri krafti bæði í hlaupum og fjallgöngum. Vorið 2016 kom félagi með þá hugmynd að reyna við Landvættina.
Vorið og sumarið helgaðist því af mörgum fjölbreyttum æfingum og miklum áskorunum. Ég fór í Scaffell Pike fjallamaraþon í Englandi, 44 km maraþon með 1.800 m hækkun og komst það við illan leik á hugarfarinu einu saman. Það var það erfiðasta sem ég hafði gert til þessa. Síðan synti ég Urriðavatnssundið og fór í Jökulsárhlaupið í ágúst sem voru hluti af Landvættinum. Tveimur vikur seinna var komið að stóru áskoruninni, heilum 7 tindum í Mosó.“
Hvað er ég að spá?
„Að morgni dags 26. ágúst 2017 leit þetta ekki vel út. Veðrið var með allra versta móti. Hífandi rok og rigning. Það kom hins vegar aldrei til greina að hætta við. Ég var vel undirbúinn líkamlega og í góðum vind- og vatnsþéttum búnaði en það er ekki hægt að undirbúa sig undir svona slagviðri.
Á sama tíma og veislutjöld og sölubásar voru að fjúka til á bæjarhátíðinni í Mosó var ég búinn að vera að í þrjá klukkutíma með 20 km að baki að berjast upp að tindi Grímannsfells í svo miklu slagviðri >20m/s að ég gat varla haldið augunum opnum. Ég var hættur að finna fyrir fingrunum af kulda og bleytu. Ég spurði mig hvað ég væri eiginlega að spá.
Það er á svona stundum sem maður kemst að því hvers maður er megnugur. Fyrst setti ég mér markmið að komast upp á topp. Það tókst og á niðurleiðinni frá Grímannsfelli fór mér að líða betur þrátt fyrir að villast örlítið. Ég barðist áfram á þrjóskunni einni saman og komst að lokum í mark um fimm og hálfum tíma seinna.“
Fallegasti verðlaunagripurinn
„Það er erfitt að lýsa tilfinningunni að klára ekki bara eitt erfiðasta hlaup í einum erfiðustu aðstæðum sem ég hef tekið þátt í heldur að klára fjögurra ára vegferð. Að vera orðinn Tindahöfðingi. Ólýsanlegt. Ég verð líka að segja að verðlaunagripurinn er fallegasti gripur sem ég hef fengið fyrir hlaupaafrek mín.
Ég lít á áskorunina um að prófa utanvegahlaup sem einn af þeim hornsteinum sem hafa breytt lífi mínu. Utanvegahlaup eru mitt helsta og besta áhugamál. Með því sameina ég útivistar- og gönguástríðuna við hlaupabakteríuna. Ég stunda nú bæði hlaup reglulega og reyni að fara svo gott sem vikulega í stuttar göngur upp á bæjarfellin í Mosó. Síðasta vetur kláraði ég síðan að vinna mér inn nafnbótina Landvættur og set nú stefnuna á að hlaupa Laugaveginn næsta sumar.“
Aldrei að segja aldrei
„Ég hef lært það á þessum tíma að allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi og ef maður setur sér raunhæf markmið, með nægan tíma til undirbúnings, er bókstaflega allt hægt. Ég er ekkert ofurmenni. Ég fór ég frá því að vera sófakartafla yfir í að gera hluti sem mér fundust áður ofurmannlegir.
Hlaup og sérstaklega utanvegahlaup snúast ekki bara um æfingar og undirbúning heldur um hugarfar. Vilji til þess að skora á sjálfan sig og trú á sjálfum sér. Maður á aldrei að segja aldrei.“
——
Tindahlaup Mosfellsbæjar er krefjandi og skemmtilegt utanvegahlaup sem haldið er í Mosfellsbæ síðustu helgina í ágúst ár hvert í tengslum við bæjarhátíðina Í túninu heima.
Boðið er upp á fjórar vegalengdir: 1 tindur (12 km), 3 tindar (19km), 5 tindar (35km) og 7 tindar (37 km).